Fréttatilkynning eftir Fiskidaginn mikla

Tónleikagestir mættu með gleði í hjarta og klæddir eftir veðri. Mynd: Bjarni Eiríksson
Tónleikagestir mættu með gleði í hjarta og klæddir eftir veðri. Mynd: Bjarni Eiríksson

Fiskidagurinn mikli 2019 - Fréttatilkynning frá framkvæmdarstjórn.
Ljósmyndarinn Bjarni Eiríksson á myndir með fréttinni.

Samvera með fjölskyldu og vinum.
Fiskidagurinn mikli var nú haldinn í 19. sinní Dalvíkurbyggð. Þúsundir gesta nutu gestrisni gestgjafanna. Það var magnað og stjórnendum til mikillar gleði að sjá trausta gesti mæta sem aldrei fyrr þrátt fyrir að í heila viku hafi verið spáð afar vondu veðri sem að  sannarlega kom ekki á meðan að Fiskidagurinn mikli stóð yfir. Matseðill Fiskidagsins mikla hefur aldrei verið eins fjölbreyttur enda um 25 réttir á seðlinum og má þar nefna, Sushi, plokkfisk, steiktar gellur, bleikju í tandoori, graflax, fiskborgara, fiskipylsur, fish and chip, harðfisk, rækjusalat og fiskisúpu.

Hinsegin dagar í Reykjavík voru heiðursgestir Fiskidagsins mikla og þeim tengt var tónlistardagskrá, regnbogagata vígð, ræðumaður á setningunni var fulltrúi þeirra og víða var flaggað og skreytt. Stjórnendur Fiskidagsins mikla, gestir og heimamenn höfðu á orði að það hefði verið dásamlegt að hafa þessa heiðursgesti og að geta stutt mannréttindi og margbreytileika. Á endanum er eitt sem stendur uppúr eftir svona stóra helgi en það er kærleiksrík samvera með fjölskyldu og vinum.


Vináttukeðjan – Fjöldaknús.
Föstudaginn 9. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er notaleg stund þar sem staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Það var Sigurður Þorri Gunnarsson útvarspmaður á K100 sem sá um vináttukeðjuræðuna sem fulltrúi hinsegin daga í Reykjavík. Hljómsveitirnar Angurværð og Ljótu hálfvitarnir glöddu gesti og Friðrik Ómar Hjörleifsson og Gyða Jóhannesdóttir ásamt karlaröddum úr Dalvíkurbyggð fluttu hið árlega lag Mamma. Heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina. 

Fiskisúpukvöldið mikla haldið í 15. sinn.
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína  uppskrift. Þetta var einstaklega gott og ljúft kvöld, gestir röltu um bæinn og nutu þess að smakka fjölbreyttar súpur og áttu innihaldsríka samveru með fjölskyldu og vinum.  

Rusl til sýnis - Fjörur hreinsaðar.  Nýtt verkefni.
Arctic Adventures ásamt sjálfboðaliðum tók þátt í dagskránni í ár með hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð. Arctic Adventures er nýtt fyrirtæki í hópi aðalstyrktaraðila Fiskidagsins mikla. Verkefnið að hreinsa fjörurnar er stærra en skipuleggjendur gerðu sér grein fyrir og munum við halda áfram með skipulagningu og hafa þetta áfram á dagskránni. Mikið magn af rusli fannst og var það til sýnis í tveimur gámafletum. Gestum fannst þetta áhugavert og voru margir undrandi yfir því hve mikið magn þetta var.

Samhjálp fær matarsendingu
Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp í Reykjavík mat sem m.a var eftir eftir Fiskidaginn, þetta hefur verið gert í nokkur ár. Það gleður stjórnendur Fiskidagsins að ekkert fari til spillis og að geta glatt  og gefið af okkur á fleiri stöðum

Tónleikar á heimsmælikvarða - Kraftmikil flugeldasýning.
Hátíðinni lauk með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu í boði Samherja. Það er óhætt að segja að enn eina ferðina hafi gestir sem mættu fyrir neðan hafnarbakkann á Dalvík orðið vitni að einum glæsilegustu tónleikum sem haldnir eru hér á landi og fagmennskan var í fyrirrúmi. Í fararbroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi. Meðal annarra sem komu fram voru: Páll Óskar, Auður, Herra Hnetusmjör, Þorgeir Ástvaldsson, Eyjólfur Kristjánsson, Svala Björgvins, Bjartmar Guðlaugsson, Valdimar, Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík setti lokapunktinn á einstaka fjölskylduhátíð með kraftmikilli og magnaðri flugeldasýningu þar sem að gasbyssur léku nýtt hlutverk. Þessi sýning var að margra mati ein sú besta frá upphafi.

Fiskidagurinn mikli 2019 heiðrar Gunnar Arason fyrrverandi skipstjóra.
Gunnar var heiðraður fyrir framlag sitt til sjávarútvegs og farsælan skipstjóraferil með skip frá Dalvík. Hann varð skipstjóri hjá útgerð Aðalsteins Loftssonar á Dalvík árið 1963, þá aðeins 22 ára gamall, fyrst með Baldvin Þorvaldsson EA 24 og síðan Loft Baldvinsson EA 124. Árið 1968 tók hann við nýju og glæsilegu skipi, Lofti Baldvinssyni EA 24. Síldin hafði þá breytt göngu sinni frá hefðbundnum miðum íslenskra fiskiskipa. Hinu nýja skipi var þá um haustið haldið til veiða í Norðursjónum og náði á stuttum tíma frábærum árangri við síldveiðar þar og frágang aflans, sem tryggði þeim hæstu verð. Það varð með öðru til þess að Loftur Baldvinsson EA 24 var um árabil með mestu verðmæti allra íslenskra fiskiskipa.  Gullaldarár skipsins voru þegar best gekk í Norðursjónum á árunum 1970 til 1975. Skipverjar á Lofti Baldvinssyni voru flestir frá Dalvík og það munaði um það að tekjuhæstu sjómenn landsins bjuggu hér. Það er stundum talað um það að heil gata hafi meira og minna verið byggð einbýlishúsum skipverja á Lofti á þessum árum. Aukin verðmæti vegna gæða aflans urðu aðall áhafnar Lofts Baldvinssonar og þar fór skipstjórinn fremstur meðal jafningja.