Vorhreingerning
Gert er ráð fyrir að farið verði í almenna vorhreingerningu í sveitarfélaginu og allir íbúar hvattir til að taka þátt í að fegra umhverfið. Verkefnið verður í samráði við Gámþjónustu Norðurlands og Hringrás og reiknað er með að þessi fyrirtæki leggi til gáma sem staðsettir verða á völdum stöðum í sveitarfélaginu. Nánari dagsetning auglýst síðar.
Garðlönd til leigu
Boðið verður upp á leigu á garðlöndum í Ytra-Holti og skulu áhugasamir hafa samband við umhverfisstjóra á netfangið valur@dalvikurbyggd.is eða í síma 8440220. Landið verður tætt og tilbúið til notkunar.
Sorpmál
Tvær tunnur eru notaðar fyrir heimilissorp í Dalvíkurbyggð.
Önnur tunnan er endurvinnslutunna en hin er undir almennt óflokkað sorp og lífrænan úrgang. Tunnan fyrir almenna úrganginn er losuð hálfsmánaðarlega en endurvinnslutunnan einu sinni í mánuði.
Opnunartími gámasvæðis er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 15:00-18:00 og laugardaga frá 11:00-14:00. Hægt að nálgast sorphirðudagatal á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is
Böggvisstaðarskáli
Umsjón með leigu á geymsluplássi í Böggvisstaðaskála er í höndum umhverfisstjóra en leigusamningar eru gerðir á umhverfis- og tæknisviði við hvern aðila. Gert er ráð fyrir að geymslupláss séu leigð út að lámarki til eins árs í senn. Gjaldskrá má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is.
Gámar og lausafjármunir
Að gefnu tilefni skal bent á eftirfarandi varðandi stöðuleyfi gáma og annarra lausafjármuna.
Samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 ber öllum þeim sem hafa gáma, hjólhýsi eða aðra stóra lausafjármuni að óska eftir stöðuleyfi. Þeir sem ekki hafa sent inn slíka umsókn er veittur frestur til 1. júní 2014, en að þeim fresti liðnum verða nauðsynlegar ráðstafanir gerðar svo hægt sé að skrá og eða fjarlægja hluti á kostnað eiganda.
Umsókn um stöðuleyfi skal vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármunanna.
Breytingar á tilhögun vinnuskóla
Sú breyting var gerð um áramót að umsjón vinnuskóla var flutt frá umhverfis- og tæknisviði yfir á fræðslu- og menningarsvið. Umhverfisstjóri mun áfram koma að þeim verkefnum sem vinnuskólinn sinnir, en íþrótta og æskulýðsfulltrúi hefur yfirumsjón með starfinu. Við þessa breytingu var ákveðið á 250. fundi sveitarstjórnar að slætti á lóðum fyrir elli- og örorkulífeyrisþega yrði hætt. Þess í stað mun sláttur hjá þeim verða niðurgreiddur af sveitarfélaginu. Nánari upplýsingar verður að finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is. Þeir sem notið hafa þessarar þjónustu munu einnig fá bréf með frekari upplýsingum um nýtt fyrirkomulag.
Búfjárhald frístundarbændur/hestamenn
Leyfi til skepnuhalds í Dalvíkurbyggð krefst búfjárleyfis sem landbúnaðarráð gefur út. Sækja skal um leyfi til búfjárhalds á þar til gerðum eyðublöðum sem hægt er að nálgast í þjónustuveri eða á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is.
Við endurnýjun búfjárleyfis skal framvísa staðfestingu tryggingarfélags.
Nánari upplýsingar má finna í búfjársamþykkt Dalvíkurbyggðar nr. 605 frá 2013.
Ný heildarlög um velferð dýra nr. 55/2013 tóku gildi um áramót og einnig endurskoðuð lög um búfjárhald nr. 38/2013.
Hunda og kattahald
Reglur um hunda og kattahald má finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.dalvikurbyggd.is. Öllum þeim sem halda eða eiga hunda eða ketti ber að hlíta þessum reglum. Í Dalvíkurbyggð er skylt að skrá og hreinsa hunda og ketti á hverju ári og hefur sveitarfélagið boðið upp á þessa þjónustu á haustin.
Ef eigandi hunds/kattar brýtur gegn lögum um dýravernd, dýrahald eða öðrum reglum, sem um dýrahald gilda, getur umhverfis- og tæknisvið Dalvíkurbyggðar afturkallað leyfi til hans og/eða bannað honum að vera með hund/kött í lögsagnarumdæmi Dalvíkurbyggðar. Um málsmeðferð gilda reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Sé brot smávægilegt skal áminna eiganda hunds/kattar að undangengnum andmælarétti. Ítrekað brot gegn lögum um dýravernd, dýrahald eða öðrum reglum sem um dýrahald gilda, varðar afturköllun leyfis til hunda/kattarhalds.
Með vorkveðjum
Börkur Þór Ottósson
Sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs
Valur Þór Hilmarsson
Umhverfisstjóri
Fréttabréf í pdf útgáfu