Fræðslufundur um umhverfismál sló í gegn

 

Sunnudaginn 30. október var haldinn fræðslufundur um umhverfismál í Dalvíkurskóla á vegum Framfarafélags Dalvíkurbyggðar. Ýmsir fróðir aðilar um umhverfismál stigu á stokk og fræddu fundargesti um ýmislegt sem tengist umhverfismálum. Framfarafélag Dalvíkur hefur að þessu tilefni sent inn fundargerð fundarins og er hægt að lesa hana hér í framhaldinu en hana tók saman Ari Baldursson.

Framfarafélag Dalvíkurbyggðar hefur undanfarin misseri staðið fyrir fræðslufundum af ýmsum toga. Mikil áhersla er lögð á upplýsingagildi þessara funda og hefur okkur tekist að fá til okkar einstaklinga sem þekktir eru fyrir  kunnáttu sína á viðkomandi málefnum og eru vinsælir framsögumenn.

Þetta framtak hefur mælst afar vel fyrir í byggðarlaginu og fékk Framfarafélagið styrk frá menningarsjóði Svarfdæla sem hvatningu fyrir áframhaldandi starfi á þessari braut.

Á aðalfundi félagsins í vor var skorað á Framfarafélagið að standa fyrir fræðslufundi um umhverfismál og er skemmst frá því að segja að sunnudaginn 30. október var hann haldinn með glæsibrag í Dalvíkurskóla.

Að þessu sinni hafði okkur tekist að fá til okkar fræðimann mikin úr Borgarnesi sem kunnur er af hnittnum tilsvörum og athugasemdum í reglulegu spjalli við þáttastjórnanda á Rás 2. Þetta er Stefán Gíslason sem er starfsmaður sambands Íslenskra sveitafélaga og leiðir verkefni sem kallað er Saðardagskrá 21. Það var eins og við var að búast. Stefán fræddi fundarmenn um þetta margumrædda fyrirbrigði á þann hátt sem honum einum er lagið svo allir fengu skýra sýn á málefnið. Hér var ekki komið að tómum kofanum og var mjög áhugavert að heyra hvernig hann sýndi fram á hag þess að fylgja eftir og starfa í anda Staðardagskrár 21.

Auk Stefáns heimsótti okkur Steinn Kárason. Steinn er mikill áhugamaður um umhverfis- og sveitastjórnarmál og er í eldlínu þeirra mála í Reykjavík um þessar mundir. Auk þess kennir hann við Háskólann á Akureyri. Viðfangsefni Steins  á fundinum var að sýna fram á hversu mikilvægt það er að móta sér umhverfisstefnu og setja sér umhverfismarkmið. Kenndi hann áheyrendum hvað hafa ber í huga þegar fengist er við slík mál og rökstuddi hagkvæmi þess fyrir heimili, fyrirtæki og sveitarfélög að koma sér upp þessháttar vinnubrögðum.

Kolbrún Reynisdóttir í Árgerði verkefnisstjóri Dalvíkurbyggðar í verkefni Landvermdar sem nefnt er Vistvernd í verki kom í pontu og fræddi viðstadda um það viðfangsefni. Nokkur áhugi er meðal íbúa sveitarfélagsinns á verkefninu og gengur það allvel. Hún færði rök fyrir ávinningi þess að beina lífstíl sínum á umhverfisvæna braut.

Að lokum vil ég nefna nágranna okkar og vini Hríseyingana Jóhönnun Maríu Agnarsdóttur og Þorgeir Jónsson (Brói). Mikla athygli vakti það sem þau höfðu að segja um árangur Hríseyinga.

Það er óhætt að segja að fundurinn um umhverfismálin hafi heppnast vel. Mörgum spurningu var svarað og margar hugmyndir ræddar. Ég vil fyrir  hönd Framfarafélags Dalvíkurbyggðar þakka framsögufólki og öllum þeim sem fundinn sóttu kærlega fyrir komuna.

Ari Baldursson

Árgerði.