Síðustu daga hefur verið unnið að gerð fótboltagolfvallar í Dalvíkurbyggð. Fótboltagolfvöllurinn er staðsettur á grasflötunum fyrir ofan sundlaugina og er níu holu völlur.
Hugmyndin að vellinum kemur frá íþróttakennurum við skóla Dalvíkurbyggðar en þeir höfðu samband við umhverfisstjóra sem brást skjótt við og útbjó völlinn. Promens tekur einnig þátt í þessu skemmtilega verkefni en þeir gefa plasthólka sem nýttir eru sem holur.
Fótboltagolf er spilað eins og golf, það er merktir eru upphafsteigar þaðan sem reynt er að hitta í ákveðnar holur í sem fæstum spörkum.
Völlurinn er öllum opinn og eru íbúar hvattir til að skoða og kynna sér þessa skemmtilegu viðbót við afþreyingu í sveitarfélaginu. Það geta allir mætt á völlinn og spreytt sig í fótboltagolfi, hvort sem fólk hefur einhvern grunn í fótbolta eða ekki. Verkefnið fellur líka vel að markmiðum Dalvíkurbyggðar um Heilsueflandi samfélag.
Kennarar við Dalvíkurskóla spreyttu sig á vellinum í síðustu viku og voru ánægðir með hvernig tiltókst.