Forvarnardagurinn 2008 í Dalvikurbyggð

Forvarnardagurinn 2008 í Dalvikurbyggð

Árlega er haldinn Forvarnardagur fyrir ungmenni í 9. bekkjum grunnskólum landsins. Að þessu sinni var Forvarnardagurinn haldinn fimmtudaginn 6. nóvember. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Verkefnið er stutt af lyfjafyrirtækinu Actavis.

Íslenskar rannsóknir hafa sýnt að þeir unglingar sem verja í það minnsta klukkustund á dag með fjölskyldum sínum, eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.

Bjarni Gunnarsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og Arnar Símonarson umsjónarkennari 9. bekkjar höfðu veg og vanda af framkvæmd Forvarnardagsins á Dalvík. Farið var í ýmsa skemmtilega leiki í íþróttahúsi Dalvíkur áður en rætt var um gildi forvarna, samveru með fjölskyldunni og mikilvægi heilbrigðra viðfangsefna í íþrótta-, æskulýðs-og tómstundastarfi. Síðan var hlýtt á ávarp forseta Íslands Að því loknu var bekknum skipt í hópa sem í voru rædd nokkur umræðuefni sem tengjast þema dagsins. Að lokum var boðið upp á hressingu áður um leið og hóparnir skiluðu niðurstöðum. Niðurstöður allra bekkjanna á landsvísu eru sendar inn og má brátt lesa þær helstu á heimasíðu dagsins... www.forvarnardagurinn.is . Þar má einnig sjá gagnlegar upplýsingar og skemmtilegt kynningarmyndband auk þess að 9. bekkingar geta tekið þátt í netgetraun með möguleika á glæsilegum verðlaunum.