Reykjanesbær og Dalvíkurbyggð hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að efla frekar tengsl bæjarfélaganna með ýmsum hætti.
Samstarfið er m.a. byggt á góðri reynslu af vinabæjarsamskiptum erlendis en ástæða þótti til þess að nýta jafnframt þá reynslu sem býr hjá sveitarfélögum á Íslandi með formlegum hætti.
Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar skrifuðu undir viljayfirlýsinguna þegar starfsfólk Dalvíkurbyggðar heimsótt Reykjanesbæ á dögunum og kynnti sér þar ýmis verkefni. Í máli þeirra kom fram að Reykjanesbær og Dalvíkurbyggð eiga ýmislegt sameiginlegt þótt stærðarmunur sé nokkur en verkefnin eru mörg þau sömu. Bæjarfélögin hafa bæði orðið til fyrir sameiningu þriggja sveitarfélaga, haldnar eru stórar bæjarhátíðir í sveitarfélögunum á hverju ári þ.e. Ljósanótt í Reykjanesbæ og Fiskidagurinn mikli í Dalvíkurbyggð ásamt fjölbreyttri uppbyggingu í ferðaþjónustu og menningarmálum.
Hvatt verður til aukinnar samvinnu og skoðanaskipta starfsfólks bæjarfélaganna í ýmsum málaflokkum og komið á samstarfi þeirra sem sjá um undirbúning og framkvæmd bæjarhátíðanna.
Starfshópur mun útfæra viljayfirlýsinguna og vinna samkvæmt markmiðum hennar og skila árlegri greinargerð til bæjarstjóranna.