|
Tjarnartjörnin breiðir nú úr sér um allar engjar og ekki vantar nema nokkra sentimetra til að áin flæði yfir bakka sína |
Hitinn að undanförnu með tilheyrandi leysingum til fjalla hefur heldur betur hleypt lífi í ár og læki á vatnasvæði Svarfaðardalsár. Það hefur m.a. haft þær afleiðingar að vatnsstaða í Friðlandi Svarfdæla er til muna hærri en að jafnaði. Á gönguleiðinni um friðlandið frá Húsabakka sem að jafnaði er hægt að ganga þurrum fótum nær vatnið nú í læri en fuglaskoðunarhúsið stendur sem betur fer á stólpum og verður ekki meint af þó það sé umflotið vatni.
Sögu- og gönguferð um friðlandið var síðasti viðburður gönguviku Dalvíkurbyggðar sem endaði í gær. Varð að flytja göngufólkið á traktor og vagni eftir gamla heybandsveginum niður á Tjarnarengjar og gerði það ferðina einungis enn ævitýralegri en upphaflega var áætlað.