Senn líður að jólafríi hjá félagsmiðstöðinni og finnst okkur starfsmönnum tilvalið að segja frá því sem gert hefur verið síðan í haust.
Eins og síðustu ár er félagsmiðstöðin opin fyrir fólk á aldrinum 6-20 ára. 6-9 ára koma einu sinni í mánuði, 10-12 ára koma tvisvar sinnum í mánuði, 13-15 ára þrisvar sinnum í viku og 16 ára og eldri einu sinni í viku. Einnig förum við einu sinni í mánuði í Árskóg og hittum þar nemendur á aldrinum 6-9 ára.
Margt og mikið hefur gengið á og hefur mætingin verið góð eins og undanfarin ár. Yfir 100 einstaklingar tóku til að mynda þátt í brjóstsykursgerðarnámskeiði og virtust allir fara heim með bros á vör. Furðufatadagur, kjánaleikar, pógó, ruslatunnufótbolti og ýmislegt annað eru orðnir fastir liðir hjá okkur í félagsmiðstöðinni en misjafnt er hvaða aldur tekur þátt í hvaða viðburði þó einstaka viðburðir séu þvert á alla aldurshópa.
Unglingar í 8.-10. bekk eru með langflestar opnanir og er forstöðumaður Víkurrastar með sérstakt nemendaráð fyrir þann aldur sem hjálpar til við að ákveða hvaða viðburðir fara fram í húsinu, og oftar en ekki aðstoða þau við viðburðina. Síðustu vikur hefur verið í nógu að snúast og dagana 21.-22. nóvember fór fram Landsmót á Dalvík. Þetta er annað árið í röð sem þetta Landsmót er haldið og er það unnið í samvinnu við allar félagsmiðstöðvar á Akureyri. Tæplega 70 þáttakendur tóku þátt frá Dalvík og Akureyri í ár og var ýmislegt skemmtilegt brallað. Á laugardeginum var skipt í 10 hópa og þáttakendur leystu þrautir saman hér og þar um Dalvík. Einnig var boðið upp á sundlaugarpartý, pizzuveislu og kvöldvöku á laugardeginum. Á sunnudeginum fór fram smiðjuvinna, unglingar völdu sér tvær mismunandi smiðjur/afþreyingar og var fjölbreytt úrval í boði. Sem dæmi lærðu sumir um hættur þess að eiga Snapchat aðgang á meðan aðrir bökuðu kökur. Á sama tíma fóru einnig fram annarskonar smiðjur um hitt og þetta.
28. nóvember fóru svo þrír keppendur fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar á Dalvík og tóku þátt í STÍL 2015 sem fer árlega fram í Hörpunni. Stíll er hönnunarkeppni á milli félagsmiðstöðva þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun út frá ákveðnu þema. Þemað í ár var Náttúra. Keppendurnir frá okkur, þær Dagný Ásgeirsdóttir, Vigdís Sævaldsdóttir og Guðrún María Sigurðardóttir, sem var jafnframt módelið, stóðu sig gríðarlega vel og á myndinni má sjá þær að keppni lokinni í Hörpu. Guðrún María er fyrir miðju í hönnuninni sem þær bjuggu til.
Eftir áramót mun svo félagsmiðstöðin opna aftur með svipuðu móti. Í nógu verður að snúast og strax þann 11. janúar fer fram söngkeppni félagsmiðstöðvarinnar á Dalvík og verður viðburðurinn haldinn í Bergi. Fjögur atriði munu keppa og verður siguratriðið fulltrúi okkar í NorðurOrg sem fer fram á Húsavík 29. jan 2016. Þar munu siguratriði allra félagsmiðstöðva á Norðurlandi taka þátt en 5 atriði þar fara áfram og taka þátt þátt í lokakeppni söngkeppni Samfés sem fer fram fyrstu helgina í mars í Laugardalshöll.
Kveðja
Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar