Í tilefni af því að nemendur Fossvogsskóla eru að vinna að verkefni um hafið var haldið upp á „„Fiskidaginn litla” föstudaginn 27. mars sl. Nemendur fengu m.a. fræðslu um helstu nytjafiska sem veiðast kringum landið en það var fisksali frá Litlu fiskbúðinni í Hafnarfirði sem útvegaði fiskinn og kynnti fyrir þeim. Einnig komu kafarar í fullum skrúða í heimsókn og lýstu fyrir nemendum heimi undirdjúpanna og sögðu frá þeim hættum og varúðarráðstöfunum sem sýna þarf við köfun og sett var upp búr með ýmsum sjávardýrum sem verða á vegi þeirra og nemendur gátu snert. Gömlu góðu sjómannalögin hljómuðu á göngum skólans og nemendur og starfsfólk mættu í bláu í tilefni dagsins. Að hætti „Fiskidagsins mikla” var að sjálfsögðu boðið upp á fiskisúpu í hádeginu fyrir alla.
Sjá nánar á heimasíðu Fossvogsskóla