Það má með sanni segja að ferðaþjónustan hér í sveitarfélaginu sé á flugi þessa dagana. Síðan í október hafa ferðaþjónustuaðilar hér hist á mánaðarlegum fundum, rætt málin, kynnt sína starfsemi og kynnst starfsemi annarra ferðaþjónustufyrirtækja. Upp úr þessum fundum fóru svo af stað fjórir vinnuhópar: um gönguvikur, um vetrartengda afþreyingu, um skemmtiferðaskip og um menningartengda ferðaþjónustu. Þessir vinnuhópar hafa síðan fundað reglulega og unnið markvisst í þessum fjórum þáttum og má nefna vel heppnað konukvöld í fjallinu sem verkefni sem er afleiðing þessarar vinnu. Hóparnir hafa síðan kynnt sína vinnu á mánaðarlegum fundunum og gefið öðrum tækifæri til þess að koma með ábendingar.
Þessi hópur fékk síðan styrk frá IMPRU - nýsköpunarmiðstöð , til þess að byggja hér upp klasasamstarf í ferðaþjónustu, en IMPRA hefur veitt styrki til slíks uppbyggingarstarfs. Klasavinna felur í sér víðtæka samvinnu fyrirtækja innan ákveðinna atvinnugreina og jafnvel þvert á þær og byggir á hugtakinu um samvinnu í samkeppni. Segja má að Ferðatröll, hagsmuansamtök ferðaþjónustuaðila hér á svæðinu, hafi verið í grunninn klasasamstarf en nú er verið að færa þá vinnu á næsta stig með markvissri vöruþróun í þeim vinnuhópum sem eru starfandi. Þannig eru Ferðatröll ábyrgðaraðili verkefnisins og sjá um alla umsýslu sem lítur að því. Markmið þessa klasasamstarfs er að efla samvinnu, markaðssetningu og vöruþróun og stendur það yfir í 6 mánuði. Styrkurinn frá Impru var nýttur til að ráða verkefnisstjóra til 6 mánaða, Frey Antonsson, og tekur hann til starfa núna 2. mars næstkomandi. Hlutverk verkefnisstjórans verður að halda utanum þau verkefni sem eru í gangi, efla markaðssetningu, gera bækling og halda utanum fundi og fundargerðir auk þess að vera í forsvari fyrir þetta verkefni.
Möguleikarnir í ferðaþjónustu hérna á svæðinu er óteljandi. Með markvissri samvinnu er hægt að gera þá sýnilega öðrum og efla þannig um leið innri uppbyggingu þessarar atvinnugreinar hér á svæðinu og gera um leið fleirum kleift að hafa ferðaþjónustu eingöngu að atvinnu sinni. Samvinnan eflir því bæði fyrirtækin og atvinnugreinina og gerir okkur öll sterkari út á við.