Það var líf og fjör hjá okkur í gær þegar enginn annar en Eyþór Ingi Gunnlaugsson eurovisionfari kíkti í óvænta heimsókn til okkar. Krakkarnir voru í söngstund í Hreyfilaut þegar átrúnaðargoðið þeirra gekk inn með gítarinn sinn. Það datt allt í dúnalogn! Ekki laust við að sumir væru örlítið feimnir en aðrir reyndu að sjálfsögðu að fanga athygli hans enda ekki á hverjum degi sem slík stjarna verður á vegi okkar. Eftir að hafa spjallað saman í smá stund byrjaði Eyþór Ingi á því að hita mannskapinn upp með „Í leikskóla er gaman“ . En eftir það var komið að stóru stundinni en það var þegar hann söng eurovision lagið sitt „Ég á líf“. Allir tóku undir af lífi og sál Við syngjum þetta lag mikið í leikskólanum (örugglega heima líka) og horfum á myndbandið svo allir kunna það nánast allt utan að. Sumir voru forvitnir um bátinn sem Eyþór var á í myndbandinu og spurðu um hann, frekar krúttlegt!
Við færum Eyþóri bestu þakkir fyrir að vera svona yndislegur að kíkja á okkur og munum að sjálfsögðu senda honum hlýjar hugsanir alla leið til Malmö þann 16. maí. Áfram Ísland!!
Kíkið á fleiri myndir í myndasafni