Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir verður sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir verður sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti samhljóða ráðningu Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur í starf sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar 2022-2026.

Eyrún er viðskiptafræðingur, með meistaragráðu í verkefnastjórnun og hefur starfað í sveitarstjórnamálum síðastliðin 20 ár, sem oddviti, sveitarstjóri og ráðgjafi. Hún er ein þriggja eigenda Ráðrík ráðgjafastofu sem sérhæfir sig í ráðgjöf varðandi sveitarstjórnamál.


Eyrún er fædd í Vestmannaeyjum, gift Tryggva Ársælssyni og eiga þau fjögur börn saman en fyrir átti Tryggvi eitt barn. Þau hjónin hafa rekið útgerð frá Tálknafirði síðan 1991.

Eyrún stýrði verkefninu Staða og framtíð íslenskra sveitarfélaga, f.h. ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála frá byrjun árs 2016 fram á mitt ár 2017. Í dag hefur verið samþykkt frumvarp sem byggir að stórum hluta á þeirri vinnu.

Eyrún hefur starfað sem formaður fagráðs um flugmál, varaformaður LÍN, varaformaður Hafnasambands Íslands, í stjórn Orkubús Vestfjarða og Hafnaráði.

 

“Ég hef mikla reynslu á vettvangi sveitarstjórnarmála. Ég var varamaður í sveitarstjórn 2002-2006 og oddviti og sveitarstjóri 2006-2014. Það er mikil reynsla sem felst í því að reka lítið sveitarfélag. Öll verkefni eru inni á borði sveitarstjóra og ég þekki því verkefni sveitarfélaga mjög vel. Starfsmannastjórn getur verið snúin í litlu og nánu umhverfi og því mikilvægt að samskipti og boðleiðir séu skýrar. Ég tel mig búa yfir mikilli hæfni í mannlegum samskiptum. Ég á mjög gott með að vinna með fólki og fá það í lið með mér til að vinna að lausn verkefna. Þá hef ég starfað í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélaga og hins opinbera s.l. 20 ár og hef því góða innsýn og þekkingu á íslenskri stjórnsýslu. Ennfremur hef ég reynslu af rekstri í sjávarútvegi þar sem við hjónin rekum erum í útgerð og ég starfaði sem fjármálastjóri í Þórsbergi-útgerð og vinnslu” segir Eyrún Ingibjörg.


Ég er auðmjúk og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt að vera ráðinn sem sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð. Dalvíkurbyggð er spennandi staður, vel staðsettur um miðjan Eyjafjörð og hefur mikla möguleika til að vaxa og dafna. Í tæp níu ár hef ég verið með annan fótinn í Kópavogi en þar sem ég er mikil landsbyggðar manneskja sakna ég þess að búa úti á landi.Tækifæri til að starfa við það sem ég hef mikla þekkingu á með góðu fólki, búa úti á landi og ekki síst kynnast nýju samfélagi er það sem gerir starfið spennandi. Ég hlakka mikið til að takast á við þau verkefni sem starfinu fylgja með starfsfólki Dalvíkurbyggðar, sveitarstjórn og íbúum."

 

“Við hlökkum til samstarfs við Eyrúnu og teljum reynslu hennar og þekkingu á sveitarstjórnamálum gagnast Dalvíkurbyggð á næstu árum í krefjandi en spennandi framtíð sveitarfélagsins. Þá hefur hún einnig reynslu af eigin rekstri bæði í útgerð og ráðgjöf sem og að hafa komið að stjórn í hafna- og orkumálum” segir Freyr Antonsson forseti sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar.