Fjölmennasta sjóstangaveiðimót sem haldið hefur verið á Íslandi var haldið frá Dalvík með þátttöku 138 keppenda frá 13 Evrópulöndum.
Evrópumeistaramót í sjóstangaveiði var haldið frá Dalvík dagana 8.-15. maí sl. með þátttöku 138 keppenda frá 13 félagsdeildum víðs vegar úr Evrópu. Þátttakendurnir komu frá Belgíu, Danmörku, Englandi, Gíbraltar, Írlandi, Íslandi, Ítalíu, Noregi, Portúgal, Rússlandi, Skotlandi, Sviss og Þýskalandi.Veitt var í sex klukkutíma dag hvern í fimm daga af 11 bátum á veiðislóð á Eyjarfirði. Alls veiddust tæplega 15 þúsund fiskar af 13 tegundum.
Evrópumeistari karla í einstaklingskeppni varð Scott Gibson, Skotlandi með 396,50 stig af 400 mögulegum. Í öðru sæti varð Ray Barron, Englandi með 395,95 stig og í þriðja sæti Heiko Dreier, Írlandi með 392,41 stig. Í kvennaflokki varð Evrópumeistari Yulia Goncharova, Rússlandi með 350,46 stig. Í öðru sæti varð Margaret Sweeney, Írlandi með 347,53 stig og í þriðja sæti Mary Gavin/Hughes, Írlandi með 329,19 stig. A-sveit Englands sigraði í sveitarkeppni þjóða (landsliða) með 1.508,83 stig, í öðru sæti varð B-sveit Írlands með 1.478,04 stig og í þriðja sæti A-sveit Írlands með 1.470,32 stig. Verðlaun voru einnig veitt fyrir 4ra manna og 2ja manna sveitarkeppni, í flokki eldri keppenda yfir 65 ára, í flokki ævifélaga og tölvudreginna 4ra manna sveita. Þyngsta fisk mótsins veiddi João Lourenço frá Portúgal, þorsk sem vó 11,570 kg. Áhugaverðasti fiskur mótsins var valinn rauðspretta sem vóg 2,230 kg., veiðimaður Colin Searles frá Englandi, en fiskurinn er stærsta rauðspretta sem vitað er um að veiðst hafi á sjóstöng við Ísland.
Í sérstakri eins dags línukeppni þar sem einungis er heimilt að veiða með 12 punda línu varð Evrópumeistari karla Roy Shipway, Írlandi með 423 aflastig og Evrópumeistari kvenna Margaret Sweeney, Írlandi með 191 aflastig. Íslensk kona, Sigurbjörg Kristjánsdóttir frá Ólafsvík, varð í þriðja sæti í kvennaflokki með 116 aflastig og næst lengsta fisk mótsins í línukeppninni veiddi Sigríður Kjartansdóttir frá Reykjavík, ufsa sem mældist 87 cm.
Mótið tókst í alla staði hið besta og settu veiðimenn mikinn svip á Dalvík á meðan á mótshaldinu stóð. Veiðimennirnir nutu einstakrar gestristni heimamanna sem buðu þeim heim í fiskisúpu og höfðu hinir fjölmörgu alþjóðlegu veiðimenn aldrei kynnst öðru líku. Margir veiðimannanna veiddu í fyrsta skipti á ferli sínum steinbít, sem þótti fiskurinn aflafengur hinn mesti. Veiðin og aðstaða öll var rómuð og ljóst er að Ísland er orðinn eftirsóttur staður til að halda íþróttakeppnir í sjóstangarveiði.
20. maí 2010
Stjórn EFSA Ísland.