Framsaga bæjarstjóra á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar 17. nóv. 2008. Forsendur hafa breyst gríðarlega síðan fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 var samþykkt hér í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar fyrir rúmu ári síðan. Stærsta breytingin og sú sem hefur mest áhrif á áætlunina er verðbólgan. Við gerð áætlunarinnar fyrir 2008 gerðum við ráð fyrir 2.8% verðbólgu. Nú í október mældist 12 mánaða verðbóga hinsvegar tæplega 16% og er reiknað með að hún muni aukast á næstu mánuðum og vera yfir 20% á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Þetta hefur að sjálfsögðu haft áhrif á niðurstöðutölur einstakra þátta þar sem verðbætur eru miklu hærri tala en við höfðum áætlað. Verðhækkanir, samfara vaxandi verðbógu, leiddu líka m.a. til þess að í vor tók bæjarstjórn ákvarðanir um að skera niður þá framkvæmdaáætlun sem fyrir lá um hluta áætlaðra framkvæmda við Fagrahvamm og aðeins í gatnagerð til að reyna að halda framkvæmdum innan fjárhagsáætlunarrammann.
Í fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2008 var rekstrarafgangur aðalsjóðs áætlaður 162 milljónir króna. Endurskoðun gefur rekstrarafgang upp á u.þ.b. 197 milljónir. Þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af verðbótum sem verða 170 m kr. í stað 76 m kr. eins og áætlað var.
Samanlagður rekstrarafgangur A og B hluta var áætlaður um 152 milljónir króna en er skv. endurskoðaðri áætlun tæplega 27 m kr. Einnig þar er það verðbólgan sem ræður mestu um niðurstöðuna en verðbætur skýra um 100 m kr. af þessum viðsnúningi. Þannig er eignasjóður kominn með halla vegna verðbóta uppá rúmlega 170 m kr. á móti tæplega 80 í áætlun og félagslegar íbúðir og hitaveita bæta líka drjúgt við sig eins og menn sjá í gögnunum. Þetta eru tölur sem við getum lítil áhrif haft á núna.
Tekjur sveitarfélagsins
Tekjur sveitarfélagsins erun nánast á pari við það sem við áætluðum; skatttekjur verða tæplega 550 m kr. og framlög frá Jöfnunarsjóði um 420 m kr. Tekjuáætlunin virðist sem sagt standa mjög vel.
Við miðuðum í áætlun við lækkun útsvarstekna frá áætluðu landsmeðaltali samkvæmt því sem fram kom í skýrslu Hagfræðistofnunar um afleiðingar þorskniðurskurðar frá 2007, þ.e. við lækkuðum okkar áætlun um 21 milljón frá landsmeðaltali. Og það virðist ætla að standast.
Gert var ráð fyrir að þjónustugjöld hækkuðu um 5%, þar sem breytingar voru gerðar á gjaldskrá, en gjöld veitna um tæp 7% sem var í samræmi við hækkun byggingarvísitölu frá okt. til okt. eins og venja hefur verið hér.
Á áætlun er að heildarframlög Jöfnunarsjóðs verði um 419 milljónir króna og virðist það ætla að ganga eftir. Þar undir er aukaframlag sem er bundið við árin 2007 og 2008.
Í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar var gert ráð fyrir 750 milljónum króna til sveitarfélaganna á árunum 2007-9 vegna tekjumissis sem þau verða fyrir vegna lægri þorskkvóta. Í ár verða þetta 250 m kr. og í þessari áætlun gerum við ráð fyrir að fá um 12 m kr. úr þeim pakka.
Reksturinn
En mestu skiptir að halda vel utanum rekstur sveitarfélagsins. Eins og áður segir hefur verðbólgan sín áhrif á fjármagnsliði og skekkir alla mynd. Þannig kemur aðalsjóður betur út en áætlað var eða um c.a. 50 m kr. en þegar aðrir sjóðir í A hluta eru lagðir við er myndin önnur, þá vantar 50 m kr.
Reksturinn á þessu ári fer einkum fram úr áætlun vegna nýrra kennarasamninga og málaflokkur 04 fer um 38 m kr. fram úr áætlun.
Snjómokstur var greinilega vanáætlaður. Þá hafa liðir verið að hækka vegna endurmats launa nokkur ár aftur í tímann. Eins og menn þekkja eru kjarasamningar lausir við öll stéttarfélög þann 30.11.2008. Ætla má að samið verði við starfsmenn sveitarfélaga á sömu nótum og gert hefur verið við aðra opinbera starfsmenn svo allir standi sem næst því jafnfætis þegar lagt er inn í nýtt ár. Þá væri um að ræða krónutöluhækkun, 20.300 kr.
Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir því að reksturinn samantekið A og B hluti tækju um 88% í hlutfalli við tekjur og þá er allt undir; laun, annar rekstrarkostnaður, afskriftir og fjármagnsliðir. Samkvæmt rekstrarniðurstöðu áranna sins 2006 og 2007 var sambærileg tala um 95%. Miðað við endurskoðaða áætlun er þessi tala kominn upp í 98% fyrir árið 2008 og munar þá mestu um fjármagnsliði.
Fjárfesting
Nokkrar breytingar hafa orðið á fjárfestingaáætlun. Áður hefur verið minnst á Fagrahvamm, en framkvæmdir við hann standa nú í um 14 m kr.
Á árinu var hlutafé aukið í Flokkun ehf. um kr. 2.672.000. Sorpgjald á þessu ári er 14.500 kr. og dugar til þess að fjármagna hluta af því sem sveitarfélagið þarf að gera í úrgangsmálum. Á næstu árum má búast við áframhaldandi breytingum á þessu sviði með eitthvað auknum kostnaði bæði fyrir sveitarfélög og almenning.
Hlutafé í Fiskey var sömuleiðis hækkað um 278.000.
Þá var ákveðið að framkvæmdir vegna íþróttahúss á þessu ári yrðu 124 m kr. en í áætlun hafði verið gert ráð fyrir framkvæmdum uppá 150 m kr.
Framkvæmdir við fráveitu urðu nokkru dýrari en ráð var fyrir gert eða sem munaði 33 m kr. Styrkur að upphæð a.m.k. um 14 m kr. ætti að koma á móti þessari framkvæmd og fæst hann vonandi á næsta ári.
Sömuleiðis varð kostnaður vegna hitaveitu meiri en áætlað var eða um 26 m kr. á móti 8 m kr. í áætlun. 10 m kr. styrkur kom úr Orkusjóði en þar á hitaveitan eftir 20 m kr. í styrk vegna þeirra framkvæmda sem ráðist hefur verið í undanfarið. Spurning er hvort sá styrkur fæst með fjáraukalögum í ár eða bíður seinni tíma.
Fimm íbúðir hafa verið seldar á árinu.
Á árinu 2008 var ekki gert ráð fyrir nýjum lántökum þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Á árinu nýttum við okkur þó lánsloforð Lánasjóðs sveitarfélaga frá fyrra ári og tókum 50 m kr. lán. Þá er sveitarélagið með 50 m kr. skammtímalán, en um tíma vorum við ítrekað komin með yfirdrátt í sparisjóðnum bæði vegna vangoldinna styrkja úr Orkusjóði og síðan dróst fram á haust að endurgreiðslur kæmu vegna VSK á hitaveituframkvæmdir. Alls voru þetta yfir 60 m kr. Því var leitað leiða til hagkvæmari skammtíma fjármögnunar. Þetta skammtímalán verður greitt upp þegar við nýtum okkur það sem eftir er af lánsloforði LS. sem líklegt er að verði á næsta ári.
Samandregið má segja að þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður sé staða sveitarfélagsins nokkuð góð. Allt er þetta þó afstætt. Staða sem við hefðum ekki sætt okkur við fyrir ári er ásættanleg núna vegna breyttra ytri aðstæðna.
Það var einhver bæjarstjórinn sem sagði að reiknuðu liðirnir væru ljótir í endurskoðaðri áætlun hjá hans sveitarfélagi og við getum líklega tekið undir það.