Á bæjarstjórnarfundi 30. júní síðastliðinn var endurskoðuð fjárhagsáætlun fyrir Dalvíkurbyggð samþykkt.
Þegar horft er á niðurstöðutölur úr endurskoðaðri fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2009 má furðu sæta hve nærri þær eru niðurstöðutölum í upphaflegri áætlun sem afgreidd var í bæjarstjórn 18. desember sl. Þá var óvissan jafnvel enn meiri en núna.
Í upphaflegri áætlun 2009 var A hluti fjárhagsáætlunar með rétt tæpl. 100 m kr. (99.909.000) í rekstrarafgang. Nú við endurskoðun er A hlutinn með afgang uppá ríflega 95 m kr. Samanteknir A og B hlutar eru í upphaflegri áætlun með afgang uppá tæplega 26 m kr.(25.763.000) en ríflega 26 m kr. í endurskoðaðri. Gert var ráð fyrir að í árslok yrði handbært fé um 137 m kr. en nú við endurskoðun verður það tæplega 153 m kr. Veltufé frá rekstri er nú um 270 m kr. á móti 266 m kr. í upphaflegri áætlun.
Staðan hefur því batnað ef eitthvað er en það er mikilvægur útgangpunktur við gerð fjárhagsáætlunar að veltufé frá rekstri sé það mikið að sveitarfélagið geti greitt vexti af áhvílandi skuldum og skuldbindingum. Það er augljóst að þar stendur Dalvíkurbyggð vel að vígi.
Helstu breytingar sem orðið hafa á upphaflegri áætlun ásamt fleiri upplýsingum má finna með því að skoða framsögu bæjarstjóra við endurskoðun fjárhagsáætlunar.