Endurskoðun fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar 2006
Framsaga bæjarstjóra á bæjarstjórnarfundi 7. nóvember 2006
Endurskoðuð fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar sýnir áætlaða stöðu samantekið fyrir A og B hluta bæjarsjóðs í árslok og á að gefa nokkuð örugga forspá um niðurstöðu ársins.
Hún er umfangsmikil og veitir stjórnendum hjá sveitarfélaginu gott aðhald.
Forsendur áætlunarinnar fyrir þetta ár var m.a. að verðbólga yrði 3,9% sem var í samræmi við spá fjármálaráðuneytisins. Verðbólgan hefur hinsvegar reynst miklu hærri og nú er talað um 7,3% verðbólgu á milli ára. Þessi breyting hefur eðlilega haft sín áhrif á þróun verðlags og vaxta og þar með áætlun ársins 2006. Það sjáum við m.a. á fjármagnsliðum áætlunarinnar en ljóst er að vextir og verðbætur eru til muna hærri en reiknað var með eða rétt um 32,5 millj. kr.
Hærri verðbólga og vextir koma líka fram í auknum framlögum til félagslega íbúðakerfisins svo munar rúmum 6 milljónum króna.
Hækkun útgjalda vegna rekstrar
Miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun hafa laun hækkað um tæplega 27 millj. kr. Þar koma m.a. inní sérstakar launahækkanir til ákveðinna hópa frá því snemma árs og ekki var fyrirséð þegar áætlun 2006 var unnin. Einnig uppfærsla lífeyrisskuldbindinga sem ætluð var um 13.5 millj. kr í upprunalegri áætlun en virðist muni aukast um 8 millj. kr. á árinu eða í 21.5 millj. kr.
En launabreytingar hafa orðið nokkrar. Á fundi Launanefndar sveitarfélaga í lok janúar samþykkti nefndin að veita sveitarfélögum skilyrtar heimildir til tímabundinnar hækkunar launa leikskólakennara, deildarstjóra í leikskólum og tengdra starfa. Hækkanir skv. heimildinni voru í formi launaflokkahækkana og eingreiðslna og giltu til 30. september 2006. Þessar hækkanir jafngiltu um 24 - 32 þús. kr. á mánuði m.v. fullt starf.
Jafnframt samþykkti nefndin að heimila sveitarfélögum að hækka með sams konar hætti lægstu laun starfsmanna í ASÍ og BSRB félögum um allt að 15 þús. kr. á mánuði.
Í apríl höfðu verið gerðir kjarasamningar við 15 stéttarfélög á vegum LN. Allir samningarnir gilda til 30. nóvember 2008. Launakostnaðarhækkanir samkvæmt þessum samningum eru í samræmi við kostnaðarauka í öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði, misjafnt milli félaga, eða frá rúmlega 20% upp í um 30%.
Leikskólakennarar gerðu síðan kjarasamning frá 1. okt. sem gildir til 30. nóv. 2008.
Þá hefur verið gengið frá kjarasamningum við BHM fólk sem eru afturvirkir til 1. febrúar og 1 apríl. Þeir gilda til 30. apríl 2008.
Miðaða við þessar forsendur má búast við kyrrð á vinnumarkaði 2007 nema ákvæði kjarasamninga bresti vegna verðbólgu svo komi til endurskoðunar. Nú þegar verður reyndar vart við óróleika hjá kennurum sem voru með endurskoðunarákvæði í sínum kjarasamningum. LN hefur þó ekki viðurkennt tilefni til endurskoðunar.
Þá hefur annar kostnaður einnig aukist. Stærstu breytingar frá fyrri áætlun eru t.d. þær að nýkjörin sveitarstjórn ákvað að lækka leikskólagjöld um 20% sem er viðbótakostnaður uppá 3 til 4 milljónir.
Þá er hækkun vegna vegna gerðar skipulags; bæði aðalskipulags og deiliskipulags uppá rúmar 3 millj.kr. og þar með er talið íbúaþing sem haldið var nú í október og sú vinna við aðalskipulagsgerðina sem er hluti af því.
Þá hækka einnig liðir eins og sorphirða og hreinlætismál.
Einnig kemur til greiðsla vegna hvatasamnings við Bruggsmiðjuna uppá um 2,5 millj. kr. svo nefndir séu nokkrir stærstu liðirnir sem mynda töluna ,,Annar rekstrarkostnaður" á yfirlitinu. Annars er víða um kostnaðarhækkanir að ræða sem óhjákvæmilegar verða í svo mikilli verðbólgu.
Auknar tekjur
Hvað sem þessum breytingum líður er útkoma aðalsjóðs, sem eru sveitarsjóður og eignasjóður, jákvæð um 34,5 millj. kr. en reiknað var með tæplega 13 millj. kr. halla í upphaflegri áætlun. Þar munar mestu að áætlað er að skatttekjur hækki um a.m.k. 22 millj. kr. og framlög úr jöfnunarsjóði um 64,5 millj. kr. m.v. upphaflega áætlun ársins 2006.
Hluti hækkunar jöfnunarsjóðs er leiðrétting fyrir árin 2001 til 2005, bæði vegna fólksfækkunar og tekjuþróunar en ríkisstjórnin ákvað í fyrra að greiða árlega sérstakt 700 milljóna króna aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árunum 2006-2008. Framlaginu er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.
Í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 2006 hefur félagsmálaráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefið út reglur um ráðstöfun 700 m.kr. aukaframlagsins á árinu 2006 og skiptist framlagið sem hér segir:
Í fyrsta lagi eru 350 m.kr. til sveitarfélaga þar sem íbúum fækkaði árin 2001-2005. Sú úthlutun hefur þegar skilað sér í um 13,5 millj. kr til Dalvíkurbyggðar.
Í öðru lagi eru 350 m.kr. til tekjujöfnunar vegna áranna 2000 og 2005. Þessi úthlutun kemur ekki til framkvæmda fyrr en endanlegur útsvarsstofn fyrir árið 2005 liggur fyrir og kemur framlagið til greiðslu fyrir áramót. Í endurskoðaðri áætlun fyrir 2006 er gert ráð fyrir því að Dalvíkurbyggð fái 10 millj. kr. út úr þessu framlagi en Dalvíkurbyggð hefur fengið tekjujöfnunarframlög öll árin þannig að þau skilyrði sem sett eru í reglunum virðast fyrir hendi.
Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2006 er fullnýtt.
Aukin útgjöld vegna framkvæmda
Um aðrar breytingar á upphaflegri áætlun er það að segja að gatnagerðarframkvæmdir hafa orðið meiri á árinu en upphaflega var gert ráð fyrir og er nú reiknað með að þær verði um 32,5 milljón nettó.
Tekjur vegna gatnagerðar verða ríflega 10 milljónir en á þessu ári hefur lóðum verið úthlutað fyrir yfir 30 íbúðir. Þessu sem og byggingu Bruggsmiðjunnar á Ársskógsströnd, hafa fylgt aukin umsvif sem koma líka fram hjá veitunum.
Framkvæmdir hafa verið miklar í ár á vegum hitaveitunnar eða um 67,4 millj. kr. skv.endurskoðaðri áætlun sem er 8,6 millj.kr. hækkun frá áætlun. Þar er einkum um að ræða borholu á Brimnesborgum og virkjun hennar, hús yfir starfsemina þar og nýjar dælur að Hamri. Tekjur veitunnar hafa nánast staðið í stað undanfarin ár en rekstrarkostnaður aukist; nú í ár hefur ,,Annar kostnaður" t.d. aukist um um 10 millj. kr. einkum vegna vegna ,,ofnamála" á Ströndinni, tenginga við nýbyggingar og svo lögfræðikostnaðar.
Þetta samanlagt hefur það í för með sér að rekstrarniðurstaða hitaveitunnar eða hagnaður af rekstri er einungis um 1.5 millj. kr. og að sú inneign sem veitan hafði myndað hjá aðalsjóði hefur nú breyst í um 16,5 milljóna skuld vegna fjárfestinga.
Fyrir þessum fundi liggur tillaga um hækkun á gjaldskrá hitaveitunnar sem svarar hækkun vísitölu frá september 2005 til október 2006 sem taki gildi frá 1. janúar 2007.
Í upphaflegri áætlun var reiknað með lántöku uppá 58 millj.kr. en til þess hefur ekki komið. Þvert á móti hefur lánapakkinn minnkað, m.a. vegna sölu á íbúðum út úr kerfinu en á árinu hafa það sem af er verið seldar átta íbúðir fyrir 71,5 millj. kr. og ein íbúð verið innleyst fyrir um átta millj. kr.
Sala íbúðanna er í samræmi við þá stefnu sem mörkuð hefur verið að reyna að fækka íbúðum í eigu sveitarfélagsins en hlutfall íbúða í eigu sveitarfélagsins hefur verið mjög hátt.
Endurskoðuð fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2006 sýnir halla samstæðunnar uppá rúmlega 19 millj. kr. en í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir halla uppá um 30 millj. kr.
Breytingin á aðalsjóði er þó meiri þar sem um er að ræða viðsnúning uppá rúmlega 47 millj. kr. - frá áætlun uppá 12,6 millj. kr. halla yfir í 34,5 millj. kr hagnað.
Ársreikningur síðasta árs sýndi líka hagnað aðalsjóðs uppá 46 milljónir króna.