Endurskoðun fjárhagsáætlunar 2005

Endurskoðun á fjárhagsáætlun yfirstandandi árs var á dagskrá bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 1. nóvember 2005.  Áætlunin var samþykkt með 7 atkvæðum, fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

Mjög jákvæð þróun hefur orðið í fjármálum Dalvíkurbyggðar á árinu 2005 frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir í lok ársins 2004.  Skatttekjur aðalsjóðs hækka um 50 millj.kr. frá upprunalegri áætlun og batnar rekstrarniðurstaða aðalsjóðs um 62 millj. kr.  Tekjuaukningu má að lang mestu leyti rekja til hækkaðra framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eða samtals 44 m.kr. í tekjufærðum framlögum.

Heildarrekstrarniðurstaða í samanteknum reikningsskilum A og B hluta, þ.e. sveitarsjóðs (aðalsjóður og eignasjóður)  og fyrirtækja (félagslegar íbúðir, fráveita, vatnsveita og hitaveita) eftir fjármagnsgjöld að upphæð 69 m.kr. og eftir afskriftir að upphæð 69 m.kr.  er neikvæð sem nemur 40 m.kr. en í upprunalegri áætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að upphæð 105 m.kr. Breyting á milli áætlana til batnaðar er því 65 m.kr.

Segja má að útgjöld málaflokka hafi í stórum dráttum verið á áætlun svo og fjárfestingar í varanlegum fjármunum. Söluverð eigna (íbúða) nemur 30,9 m.kr.  Samkvæmt ársreikningi ársins 2004 var handbært fé meira en ráð var fyrir gert við áætlun ársins 2005 miðað við endurskoðaða áætlun 2004 og því breytast fjármögnunarhreyfingar í endurskoðaðri áætlun ársins 2005 yfir í það að gert er ráð fyrir að greiða 98,6 m.kr. af eldri lánum.  Ekki er ráðgert að taka nein ný langtímalán, en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 101,1 m.kr. lántökum. Handbært fé í árslok er áætlað 83,4 m.kr. og veltufjárhlutfall er áætlað 1,07  og skuldir án lífeyrisskuldbindinga á hvern íbúa  er áætlað að verði í árslok 2005,  578 þús.kr. en voru í árslok 2004,  604 þús.kr. og munu því lækka um 26 þús.kr. á hvern íbúa.

Dalvík 3. nóv. 2005

Valdimar Bragason,

bæjarstjóri.

Endurskoðaða fjárhagsáætlun 2005 má finna undir stjórnsýsla og fjárhagsáætlanir en einnig með því að smella hér.