25. mars 2008
Eins og komið hefur fram átti Guðmundur Guðlaugsson á Dalvík lægsta boð í endurnýjun á trébryggju á suðurgarðinum á Dalvík. Á dögunum var samningur að fjárhæð rúmar 24 milljónir undirritaður um verkið og er Guðmundur þegar byrjaður að reka niður staura.
Í samtali við Norðurslóð sem kom út síðastliðinn miðvikudag sagði Guðmundur að um páska verði búið að reka niður staurana en þá verði uppihald hjá sér þannig að sjálf bryggjusmíðin hefjist í byrjun maí.
Hann segir að samkvæmt samningi um verkið eigi hann að skila því 1. ágúst og það ætli hann að standa við svo framalega að ekki standi á efni. Guðmundur er enginn nýgræðinur í bryggjusmíði hefur í áratugi unnið með Guðlaugi föður sínum við hafnarframkvæmdir víðsvegar um land. Þeir unnu meðal annars að endurbyggingu á norðurgarðinum á Dalvík á sínum tíma.
Sigtryggur Benediktsson hjá Sigingamálastofnun sem hefur fyrir hönd stofnunarinnar umsjón með framkvæmdum hér, sagði í samtali við Norðurslóð að nú sé verið að gera verksamning við Dalverk ehf á Dalvík vegna vinnu við grjótgarð á Hauganesi en Dalverk var með hagstæðasta tilboðið í það verk. Þá er gert ráð fyrir vinnu við sjóvörn á Árskógsströnd síðar á árinu.
Hann sagði að nú væri búið að bjóða út stál í gerð ferjuhafnarinnar og í framhaldi af því verður vinna við gerð ferjuhafnar boðin út. Hann sagði að gert sé ráð fyrir að vinna við verkið sjálft geti hafist fyrrihluta sumars. Eins og kunnugt er verður ferjuhöfnin norðan við smábátahöfnina.