Eiríkur Helgason og Sæmundur Hrafn Andersen urðu heimsmeistarar í Brús 2007 á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Rimum í Svarfaðardal um helgina. Gullkamburinn eftirsótti, sem er farandgripur, verður því í vörslu Eiríks og Sæmundar fram að næstar heimsmeistaramóti að ári.
Í öðru sæti urðu Kristján Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir en í því þriðja urðu Þór Ingvason og Hallgrímur Einarsson. Alls tóku 34 keppnislið þátt í heimsmeistaramótinu að þessu sinni en samhliða mótinu voru starfræktar kennslu-og æfingabúðir í brús í hliðarsal. Heimsmeistaramótið var liður í héraðshátíðinni Svarfdælskur mars sem haldin var í Dalvíkurbyggð um helgina.
Á laugardeginum var frábær dagskrá í Hvoli þar sem Þórarins Hjartarsonar var með erindi um trúbardora og Jóns Laxdal las upp ástarljóð frá ýmsum tímum, einkum ljóðaþýðingar Daníels Á Daníelssonar. Þar setti Þórarinn m.a. fram þá kenningu að líklega hefði Klaufi Hafþórsson verið fyrsti trúbadorinn á Íslandi. Þetta var óvænt og Klaufi fékk strax mildara yfirbragð; þessi fantur sem hann var ef marka má Svarfdælasögu
Hátíðinni lauk svo að vanda með því að marsinn var stiginn að Rimum á laugardagskvöldið með tilheyrandi dansleikjum af ýmsum toga við undirleik hljómsveitar hússins. Gestaspilarinn Þórir Baldursson setti flottan svip á tónlistina að þessu sinni.