Dalvíkurbyggð - Náttúrulega

Dalvíkurbyggð - Náttúrulega

Dalvíkurbyggð – Náttúrulega er heitið á ljósmyndasýningu Guðnýjar S. Ólafsdóttur sem nú fer fram í Bergi menningarhúsi á Dalvík.


Eins og titillinn gefur til kynna eru myndirnar allar náttúrutengdar. Vorkvöld, hauststillur, blóm sumarsins og dýr vetrarins sýna á fjölbreyttan hátt hringrás náttúrunnar. Mildir, mjúkir, litatónar vors og haust. Hvítir dagar vetrarins. Æpandi, ögrandi sólarlag sumarsins. Þannig ferðast maður í gegnum árstíðirnar. Allt fer í hringi og við byrjum upp á nýtt.


Þetta er fyrsta sýning Guðnýjar en hún hefur lengi haft áhuga á ljósmyndun. Náttúran í sinni víðustu mynd er henni hugleikin. Að liggja á maganum upp í fjalli eða niðri í fjöru. Taka myndir af blómi, mosa, skel, ryði eða einhverju sem fáir veita athygli í umhverfinu er henni sérstakur ánægjuauki sem skilar sér í skemmtilegri ljósmyndasýningu sem enginn ætti að missa af.

Sýningin stendur út febrúar og er öllum opin.