Sterkt samfélag og kraftmiklir íbúar
Í dag eru liðin 10 ár frá því fyrsta sveitarstjórn var kosin fyrir sveitarfélagið Dalvíkurbyggð, en 18. október haustið áður hafði sameining verið samþykkt í alsherjaratkvæðagreiðslu í sveitarfélögunum þremur, Árskógshreppi, Dalvíkurbæ og Svarfaðardalshreppi. Þessi tíu ár hafa að ýmsu leyti verið umbrotatími. Ýmislegt af því sem vonir voru bundnar við hefur gengið eftir, annað ekki; átök hafa orðið um einstakar ákvarðanir sveitarstjórnar en góður stuðningur við aðrar, eins og gengur í lýðræðissamfélagi þar sem íbúarnir vilja hafa sitt að segja um gang mála oftar en á fjögurra ára fresti. Það er líka mikill kraftur í íbúum þessa unga sveitarfélags eins og sjá má í uppbyggingu atvinnulífs, bæði til sjávar og sveita. Íþróttalíf er öflugt og Dalvíkurbyggð státar af mörgum afburða íþróttamönnum. Leikfélag Dalvíkur er með tvær sýningar á ári og öflugt unglingastarf og sjö kórar eru starfandi í sveitarfélaginu. Byggðasafnið Hvoll hefur sérstöðu meðal safna á Eyjafjarðarsvæðinu og gleður bæði unga og gamla og bókasafnið er vel nýtt af íbúunum. Sveitarfélagið hefur líka fóstrað, og fóstrar enn, marga góða listamenn.. Sparisjóður Svarfdæla á Dalvík gaf íbúunum menningarhús sem á að verða tilbúið vorið 2009. Skóflustunga að nýrri íþróttamiðstöð verður svo tekin í ár.
Já, það þarf kraft og trú á byggðarlagið til að halda úti svo öflugu atvinnulífi og íþrótta- og menningarstarfi. Þann kraft hafa íbúar Dalvíkurbyggðar og e.t.v. sýnir það sig best á hverju ári þegar Fiskidagurinn mikli dregur að sér ótrúlegan fjölda fólks og vekur jákvæða athygli á byggðarlaginu og íbúum þess.
En hvernig er staðan hjá ,,afmælisbarninu" sjálfu?
Samkvæmt niðurstöðutölum ársreiknings fyrir 2007 hefur staða sveitarfélagsins verið að styrkjast. Það er rekið með góðum rekstrarafgangi sem gerir okkur kleift að ráðast í stórar framkvæmdir án lántöku. Dalvíkurbyggð skilar sér í 7. sæti draumasveitarfélaga samkvæmt úttekt tímaritsins Vísbendingar. Sú skoðun sýnir að sveitarfélagið er vel rekið og með hátt þjónustu- og framkvæmdastig. Dæmi um framúrskarandi þjónustu eru t.d. leikskólarnir, en þeir taka við börnum strax eftir fæðingarorlof. Það er stundum sagt að það þurfi þorp til að ala upp barn. Í Grunnskóla Dalvíkurbyggðar er verið að innleiða skólastefnu sem gerð var í samvinnu fjölda fólks sem kemur að skólamálum; foreldra og fagfólks. Og nemendur fengu líka að koma sínum áherslum að. Í mörgum starfandi félögum í sveitarfélaginu fer líka fram gott uppeldisstarf. Ég trúi að það skili sér áfram í sterkum einstaklingum sem verða virkir þátttakendur í samfélagi okkar.
Hér er dregin upp mynd af sterku samfélagi sem við getum verið stolt af á 10 ár afmæli Dalvíkurbyggðar. Aldrei munum við þó hafa lokið öllum verkum en það er gott að líta yfir farinn veg og læra af. Þannig gengur okkur betur við lausn þeirra verkefna sem bíða.
Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar