Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í fimmta sinn í dag, 6. febrúar, en þennan dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.
Leikskólar sveitarfélagsins halda daginn hátíðlegan með ýmsum hætti. Á Kátakoti verður opið hús frá klukkan 9:30 - 11:30 og frá klukkan 12:30 - 14:00. Allt hefbundið skólastarf fellur niður en þess í stað verða börnin í frjálsum leik og útiveru. Sérstaklega verður boðið uppá skoðunarferðir um nýju deildina sem nú hefur tekið til starfa en einnig boðið upp á kaffi og köku. Á Krílakoti verður opið hús frá kl. 14:00-16:00. Boðið verður uppá stöðvavinnu s.s. myndasýningu, hreyfingu, tónlist og perlur, púsl og bækur og svo framv. Kaffi og meðlæti er í boði foreldrafélagsins.