Í janúar samþykkti sveitarstjórn að breyta skipulagi stjórnsýslunnar þannig að veitu- og hafnasvið og umhverfis- og tæknisvið verði sameinuð í eitt svið, framkvæmdasvið. Nú er unnið að því að koma skipulagsbreytingunni í framkvæmd en einhugur var í sveitarstjórn um breytingarnar.
Breytingarnar koma í kjölfar þess að sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs sagði starfi sínu lausu en hann mun hverfa frá störfum vegna aldurs á næstu mánuðum. Í kjölfarið vann byggðaráð þarfagreiningu sem alltaf skal unnin þegar störf losna. Hún var í grunninn byggð á vinnu sem hófst árið 2016 og var t.a.m. stofnun eigna- og framkvæmdadeildar hluti af þeirri vinnu.
Meginmarkmið breytinganna er samhæfing á rekstri, bætt þjónusta og aukin skilvirkni viðkomandi málaflokka. Ábyrgð og yfirumsjón verður á herðum eins sviðsstjóra sem einfaldar málin fyrir innri og ytri viðskiptavini og bætir þjónustu. Að mati sveitarstjórnar er mikilvægt að sviðsstjórinn tali tungumál tækninnar þar sem hann ber ábyrgð á flóknum veitu- og lagnakerfum sem eru ein af grunnstoðum samfélagsins. Því hefur verið auglýst eftir tæknimenntuðum einstaklingi til að sinna starfi sviðsstjóra en einnig er mikilvægt að í starfið veljist metnaðarfullur leiðtogi sem deilir ábyrgð og byggir upp sviðið með öflugum og traustum samstarfsmönnum.
En það verða ekki lagðar niður tvær stöður sviðsstjóra og aðeins ein stofnuð í staðinn. Því var ákveðið var að stofna nýtt starf byggingar- og skipulagsfulltrúa sem sæi einnig um lóð, lendur, landbúnaðarmál o.fl. sem hefur verið sinnt af sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs. Sú staða er einnig auglýst núna þar sem sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs ákvað að þiggja ekki boð sveitarstjórnar um að gegna þeirri stöðu.
Á meðan skipulagsbreytingin er innleidd og verið er að manna stöður er mikið álag á framkvæmdasviðinu og því finna íbúar og viðskiptavinir fyrir. Núna er verið að deila út verkefnum, bæði á annað starfsfólk og tryggja aðkeypta þjónustu, til að koma í veg fyrir rof í þjónustunni. Vonandi tekst að ráða í bæði störfin í byrjun apríl þannig að hið nýja svið verði að fullu starfhæft sem fyrst en eðlilega þurfa nýir starfsmenn tíma til að koma sér inn í starfið og málin.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.