Á síðasta fundi bæjarstjórnar voru samþykktar hugmyndir fræðsluráðs um breytingar á skipulagi leikskólamála í sveitarfélaginu. Breytingin felst m.a. í því að leikskólinn Fagrihvammur verði færður undir stjórn skólastjóra Grunnskóla Dalvíkurbyggðar, þegar samningur við rekstraraðila rennur út, í samræmi við gildandi lög sem heimila að sami skólastjóri geti verið yfir bæði grunnskóla og leikskóla. Fagrihvammur er í dag einkarekinn leikskóli en rekstaraðilar hans hafa nú sagt upp samningi sínum við sveitarfélagið frá og með sumarlokun.
Á Fagrahvammi verður á komandi hausti boðið upp á nám fyrir elstu árganga leikskólabarna og munu börn á Krílakoti sem eru fædd árið 2004 færast niður á Fagrahvamm. Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á Leikbæ.
Á Fagrahvammi verður því einblínt á elstu börn leikskólans undir stjórn skólastjóra Grunnaskóla Dalvíkurbyggðar. Hugmyndin er að sameina það besta úr báðum heimum, leikskólans og grunnskólans, og vinna þannig að metnaðarfullu námsframboði. Mikil vinna hefur nú þegar farið fram við undirbúning þessara breytinga með aðkomu grunnskóla, leikskóla og foreldra. Stofnað hefur verið teymi undir stjórn skólastjóra grunnskólans en í því eru skólastjóri grunnskólans, deildarstjóri yngri barna í Dalvíkurskóla, Gunnhildur Birnisdóttir kennari Dalvíkurskóla, skólastjóri Krílakots og Helga Snorradóttir, núverandi rekstraraðili Fagrahvamms. Opinn fundur verður í Dalvíkurskóla í dag, 28. apríl kl. 17:00 þar sem hugmyndavinna að stefnu skólans fer fram.
Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta á fundinn en jafnframt er aðilum velkomið að hafa samband við sviðsstjóra fræðslumála eða Skólastjóra grunnskólans ef eitthvað er.