Breyting á gjaldtöku á heitu vatni

Ágætu viðskiptavinir Hitaveitu Dalvíkur


Óánægja hefur verið hjá viðskiptavinum Hitaveitu Dalvíkur vegna verðlagningar á heita vatninu. Þessi óánægja hefur snúist fyrst og fremst um hitastig á vatninu við inntak. Til að bregðast við því var tekin ákvörðun af sveitarstjórn um að selja vatn eftir þeirri orku (kWst) sem viðskiptavinurinn notar í stað rúmmetra (m3/tonnum).

Hinn 1. mars sl. varð sú breyting að raunveruleika og taka reikningar hitaveitunnar núna mið af orkunotkun (kWst.) en ekki magni af rúmmetrum (m3/tonnum) af heitu vatni. Orkumælingin er framkvæmd um sex sinnum á klst., og tekur mið af hitastigi vatns við inntak, sem er breytilegt, og viðmiðunarhitastigi gjaldskrár sem er 25°C. Á reikningnum birtist einnig, til upplýsingar, þeir rúmmetrar sem notaðir hafa verið á tímabilinu en þeir eru ekki notaðir til reikningsgerðar. Þetta er gert svo mögulegt sé að bera saman upphæð reiknings fyrir og eftir þessa breytingu.

Reikningar hitaveitunnar munu taka mið af raunverulegri notkun þ.e. lesið verður af orkumælunum fyrir hverja reikningagerð þannig að þeir endurspegla raunnotkun hvers viðskiptavinar.

Skýringar á gluggum sem orkumælirinn sýnir:
 Gluggi 1:E-1 Orka milli T-1 og T-2 (eining: kWh)
 Gluggi 2:E-4: Orka milli T-1 og T-3 (eining: kWh)
 Gluggi 3: Magnmæling í rúmmetrum, eining: m3
 Gluggi 5:T-1: Hitastig á innrennsli við álestur
 Gluggi 6:T-2: Hitastig á útrennsli, ef tengdur, við álestur
 Gluggi 7:T-3: Fast hitastig, stillt á 25°C, viðmiðunarhitastig gjaldskrár
 Gluggi 8: Magnmæling í lítrum á klst. sem rennur um mælinn við álestur


Ef frekari upplýsinga er þörf þá vinsamlegast hafið samband við undirritaðan.

Dalvík 6. maí 2015

Þorsteinn Björnsson
Sviðsstjóri veitu- og hafnasviðs