30. desember síðastliðinn fór fram kjör á íþróttamanni ársins í Dalvíkurbyggð. Undanfarin ár hefur Björgvin Björgvinsson skíðamaður hampað hinum glæsilega bikar sem er tákn íþróttamanns Dalvíkurbyggðar en hann hefur unnið titilinn sl. átta ár. Ekki varð breyting á því að þessu sinni og var Björgvin kosinn íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 9. árið í röð. Hlaut hann að verðlaunum eignagrip en einnig fær hann til varðveislu glæsilegan farandgrip.
Björgvin Björgvinsson dvaldi að lang mestu leiti erlendis á þessu ári við æfingar og keppni með landsliði Skíðasambands Íslands. Björgvin tók þátt í fjölmörgum alþjóðlegum mótum á vegum FIS þar sem hann stóð sig vel. Þá tók hann þátt í Evrópubikarnum og náði góðum árangri á mörgum þeirra.
Björgvin varð þrefaldur Íslandsmeistari á Skíðamóti íslands í vor. Þar vann hann svig, stórsvig og alpatvíkeppnina.
Þá vann hann FIS móta seríu sem haldin var samhliða Skíðamóti Íslands
Þriðja árið í röð vann Björgvin Eysteinsbikarinn, veglegan bikar og eitt þúsund dollara að gjöf fyrir besta samanlagðan árangur í skíðamótum sem íslenskir karlkyns skíðamenn taka þátt í ár hvert. Þennan veglega verðlaunagrip og verðlaunafé gefur hinn fyrrum skíðameistari Eysteinn Þórðarson og eiginkonan Pamela en þau eru búsett í Angels Falls í Californíufylki á vesturströnd Bandaríkjanna.
Besti árangur Björgvins á mótum erlendis er þessi.
Varð í 2. sæti í svigi í Cran í Slóveníu og hlaut 19.77 FIS stig.
Varð í 2. sæti í svigi í Rogla í Slóveníu og hlaut 16.91 FIS stig.
Varð Eyjaálfubikarmeistari
Björgvin stefnir á Ólympíuleikana í Vancouver í Kanada árið 2010 og er undirbúningur þegar hafin fyrir leikana. Frammistaða Björgvins á síðustu árum er það góð að hann er á B styrk hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Björgvin er í dag númer 124 á heimslista í svigi með 14.72 FIS stig og stórsvigi númer 184 með 20.13 FIS stig.
Auk Björgvins voru eftirtaldir tilnefndir:
Agnar Snorri Stefánsson - hestaíþróttir
Björgvin Björgvinsson - skíði
Eva Hrönn Arnardóttir - sund
Harpa Lind Konráðsdóttir - frjálsar íþróttir
Hákon Hafþórsson - körfuknattleikur
Jóhann Hreiðarsson - knattspyrna
Sigurður Ingvi Rögnvaldsson - golf
Hestaíþróttamaður Dalvíkurbyggðar er Agnar Snorri Stefánsson.
Agnar Snorri er tilnefndur af Hm.félaginu Hring fyrir dugnað og frábæran árangur í keppni á árinu sem er að líða. Síðast liðin ár hefur Agnar starfað við áhugamál sitt hestamennskuna á erlendri grundu þar sem hann hefur þjálfað og tamið fjölda hrossa. Árangur erfiðisins hefur ekki látið á sér standa. Meðal annars var Agnar Snorri valinn til að keppa fyrir Ísland á Norðurlandamóti í ágúst, þar sem hann hafnaði í 6. sæti í slaktaumatölti. Síðastliðinn vetur tók Agnar þátt í meistaradeild í Danmörku þar sem hann hafnaði í 1. sæti í 100m skeiði, í tölti lenti hann í 2. sæti, og 4. sæti í fjórgangi. Þá tók hann einnig þátt í Ístölti þar sem hann sigraði á mjög sterku móti innanhús.
Danska Meistaramótið var haldið 2. september, þar sigraði Agnar í A-flokki gæðinga. Þetta er aðeins brot af þeim mótum sem Agnar tók þátt í á síðasta ári og sennilega þau sterkustu. Fyrir utan keppnisvöllinn hefur Agnar staðið í mótahaldi og var meðal skipuleggjenda á meistaradeild Danmerkur sem þótti glæsilegt mót í alla staði og mikil kynning á íslenska hestinum og íslenskri þjóð.
Sundmaður Dalvíkurbyggðar er Eva Hrönn Arnardóttir .
Sundkonan Eva Hrönn Arnardóttir á stigahæsta sundið meðal sundmanna Sundfélagsins Ránar á árinu 2008. Eva tók miklum framförum í sundi á árinu. Besta árangri á árinu náði hún á Unglingamóti Ármanns í haust þar sem hún vann m.a. til bronsverðlauna í 100m bringusundi. Einnig vann Eva verðlaun á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fór í Þorlákshöfn sumarið 2008. Ástundun hennar á sundæfingar er góð og er hún öðrum sundmönnum til fyrirmyndar.
Frjálsíþróttamaður Dalvíkurbyggðar er Harpa Lind Konráðsdóttir.
Hún hefur um árabil verið um árabil verið besti frjálsíþróttamaður UMF Reynis þó ung sé að árum. Hún hefur átt við þrálát meiðsl að stríða, en hefur ekki lagt árar í bát og heldur sínu striki við iðkun sinnar íþróttar af eljusemi og áhuga. Harpa hefur með árangri sínum í mótum á árinu tryggt sér sæti í úrvalshópi FRÍ í tveimur greinum, sem eru spjótkast og 60 m. hlaup.
Körfuknattleiksmaður Dalvíkurbyggðar er Hákon Hafþórsson.
Sá sem er tilnefndur að hálfu körfuknattleiksdeldarinnar heitir Hákon Hafþórsson. Hákon er drengur góður og hefur verið einn besti leikmaður Dalvíkurliðsins á síðustu leiktíð. Hann er rólegur og yfirvegaður og gat tekið af skarið í jöfnum og erfiðum leikjum og leitt liðið til sigurs.
Knattspyrnumaður Dalvíkurbyggðar er Jóhann Hreiðarsson
Jóhann leikur með liði Dalvíkur-Reynis en hann kom frá Þrótti í Reykjavíkeftir nokkra ára fjarveru frá Dalvík. Hann var kosinn knattspyrnumaður ársins hjá félaginu af leikmönnum en hann var einnig markahæsti leikmaður liðsins sl. sumar. Jóhann er liðsmaður góður og nú hefur hann tekið að sér þjálfun liðs síns á komandi keppnistímabili.
Golfmaður Dalvíkurbyggðar er Sigurður Ingvi Rögnvaldsson.
Sigurður Ingvi er besti 15 ára golfleikari landsins samkvæmt árangri á KB mótaröðini sem er hin opinberi mælikvarði GSÍ. Sigurður Ingvi tók þátt í 4 af 6 mótum í aldursflokki 15-16 ára. Þar var besti árangur 3. sætið í íslandsmótinu í holukeppni. Hann endaði í 9. sæti á heildarlistanum.
Þá er hann klúbbmeistari GHD og golfmaður GHD.
Sigurður Ingvi stundaði golfíþróttina af mikill samviskusemi allt þetta ár, bæði vetur og sumar. Sigurður Ingvi hefur hafið inniæfingar undir leiðsögn atvinnukennarans Árna Sævars Jónssonar. Markmiðið fyrir næsta ár eru titlar og landsliðssæti.