Björgvin Björgvinsson varð um helgina fjórfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum á Skíðamóti Íslands sem fór fram á Akureyri. Hann fagnaði sigri í svigi, stórsvigi, alpatvíkeppni og samhliðasvigi.
Björgvin náði bestum tíma allra keppenda í sviginu en fjölmargir erlendir keppendur voru á mótinu. Í stórsviginu náði Fred-rik Nordh frá Svíþjóð bestum tíma allra og Luka Zajc frá Slóveníu varð annar. Björgvin varð þriðji en náði bestum tíma Íslendinganna.
Íris Guðmundsdóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari en hún fagnaði sigri í stórsvigi og samhliðasvigi. Systir hennar, María, varð einnig tvöfaldur meistari en hún bar sigur úr býtum í svigi og alpatvíkeppninni.
Elsa Guðrún Jónsdóttir vann fjóra Íslandsmeistaratitla í skíðagöngu - sprettgöngu, göngu með frjálsri aðferð, göngu með hefðbundinni aðferð og í tvíkeppni.
Andri Steindórsson bar sigur úr býtum í sprettgöngu karla og í tvíkeppninni. Sævar Birgisson varð hlutskarpastur í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð og Brynjar Leó Kristinsson í 15 km göngu með frjálsri aðferð.
Sveit Ísafjarðar fagnaði sigri í boðgöngu kvenna en A-sveit Akureyrar í boðgöngu karla.