Verkefnið Bæjarrými er Mannlífsverkefni í Dalvíkurbyggð var unnið sumarið 2023 í samstarfi við Dalvíkurbyggð með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verkefnið var unnið af þremur grunn- og framhaldsnemum í landslagsarkitektúr, þeim Auði Ingvarsdóttur, Pétri Guðmundssyni og Styrmi Níelssyni. Umsjónarmaður verkefnisins var Anna Kristín Guðmundsdóttir landslagsarkitekt og formaður skipulagsráðs Dalvíkurbyggðar.
Verkefnið fól í sér að styrkja mannlíf og skapa skemmtileg rými miðsvæðis á Hauganesi, Dalvík og Árskógssandi með tímabundnum innsetningum og hönnunarlausnum. Tilgangurinn með verkefninu var að vekja athygli á vannýttum svæðum innan byggðarkjarnana og gefa þeim nýtt líf. Markmiðið var að gera svæðin áhugaverð og draga að fólk. Gerðar voru greiningar á miðsvæðum innan Dalvíkur, Hauganess og Árskógasands þar sem möguleikum og áskorunum hvers svæðis var varpað fram. Þá var sett fram spurningakönnun á netinu fyrir íbúa sveitarfélagsins og haldnir samtalsfundir með íbúum. Samtal við íbúa gaf hópnum mynd á hvað er ábótavant á svæðunum ásamt því hvaða svæði töldust heppileg til að gera tilraunir með. Hönnunarlausnirnar voru unnar úr afgangsefnum frá fyrirtækjum á svæðinu ásamt efni og málningu sem sveitarfélagið og velunnarar styrktu verkefnið um. Eftir að innsetningarnar voru komnar upp var svæðunum haldið við, notkun þeirra skrásett og viðtöl tekin við fólk sem lagði leið sína á svæðin. Niðurstöður verkefnisins voru teknar saman og sett fram verkfærakista sem kemur vonandi til með að nýtast sveitarfélögum og hvetja til svipaðra verkefna í nánustu framtíð“. Út er komin skýrsla um verkefnið í heild sinni og má nálgast hana hér.