Bæjarpósturinn kemur aftur út n.k. fimmtudag, 20. jan eftir nokkurt hlé. Útgáfufélagið Rimar ehf sem gefur út Norðurslóð hefur tekið við útgáfunni en blaðið verður áfram prentað í prentsmiðju Víkurprents á Dalvík. Fyrir utan nokkrar útlitsbreytingar verða þær breytingar helstar á útgáfunni að blaðið kemur nú út þrisvar í mánuði en fjórðu viku hvers mánaðar kemur Norðurslóð út þannig að kaupendur blaðsins fá eftir sem áður sitt vikulega blað. Kaupendur Norðurslóðar verða á hinn bóginn ekki sjálfkrafa áskrifendur að Bæjarpóstinum nema þeir óski sérstaklega eftir því. Ritstjórar Bæjarpóstsins og Norðurslóðar eru þeir Hjörleifur Hjartarson og Jóhann Antonsson og blaðamaður er Halldór Ingi Ásgeirsson.
Að sögn ritstjóra er útgáfunni fyrst og fremst ætla að mæta knýjandi þörf fyrir vikulegan, lifandi frétta -og auglýsingamiðil og vettvang lýðræðislegrar umræðu sem nauðsynlegur er hverju samfélagi sem vill taka sig alvarlega. Það velti hins vegar mjög á viðbrögðum lesenda og auglýsenda í Dalvíkurbyggð hvert framhaldið verður. Rekstur blaðsins hefur verið þungur um langt skeið og ljóst er að bæði verður áskrifendum að fjölga og áskriftar- og auglýsingagjöld að hækka til að blaðið fái staðið undir sér til framtíðar.
Ný ritstjórnarskrifstofa blaðsins hefur verið opnuð á annarri hæð Ráðhúss Dalvíkur og sími ritstjórnar er 466-1300.