Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri.
Kæru gestir, verið velkomin á 20 ára afmælisfagnað Dalvíkurbyggðar en þann 7. júní síðastliðinn voru liðin 20 ár frá því að Dalvíkurbyggð varð til sem sveitarfélag þegar Dalvíkurbær, Árskógshreppur og Svarfaðardalshreppur runnu saman í eina stjórnsýslueiningu.
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar á þessum tíma og eitt og annað gerst en samt er þetta ekki langur tími í veraldarsögunni. Íbúum sveitarfélagsins hefur fækkað á þessum 20 árum eða um rúm 7%. Það hefur aðeins tekið að fjölgað aftur hin síðari ár og í dag eru rúmlega 1900 íbúar í Dalvíkurbyggð. Það er athyglisvert að skoða aldurssamsetningu í þessu samhengi og ef horft er t.d. aðeins á Dalvíkurskóla eru í dag um 220 börn í skólanum en voru ríflega 300 þegar mest var. Það hefur fækkað mikið í árgöngum og sem dæmi voru rúmlega 50 börn í árgangi 1991 þegar þau sátu 10.bekk í Dalvíkurskóla. Í ár eru ekki nema tæplega 20 fæðingar áætlaðar í Dalvíkurbyggð. Þetta er athyglisvert og ljóst að við þurfum einhvern hvata fyrir ungt fólk til að setjast hér að og fjölga barneignum. Ég bið viðstadda um að hugsa vel um þetta þegar gengið er til rekkju í kvöld, svona viðstadda sem eru á ákveðnum aldri að minnsta kosti.
Atvinnulífið hefur breyst töluvert á þessum árum. T.a.m. eru færri fiskverkanir og færri verslanir. Á móti hefur ferðaþjónustan sótt í sig veðrið og landbúnaðurinn styrkt stöðu sína. Þá hefur störfum fjölgað hjá sveitarfélaginu með fleiri verkefnum, kröfum frá Ríki og regluverki sem þarf að uppfylla.
En hvernig er að búa hér í dag. Nýverið voru unnin þrjú stutt kynningarmyndbönd um Dalvíkurbyggð sem verða sýnd hér á efitr. Það er fróðlegt að heyra þau orð sem viðmælendur hafa um búsetuna hér og ásýnd á sveitarfélagið. Sumum finnst þeir hafa unnið í happdrætti lífsins með því að setjast hér að. Það er vandfundið landssvæði með viðlíka náttúrufegurð og hérna er gott að ala upp börn. Hér er rík menningararfleifð og öflugt íþrótta-og félagslíf. Og við erum heppin með fjölmenninguna í sveitarfélaginu, fólk frá mörgum löndum hefur sest hér að, auðgað mannlífið og víkkað sjóndeildarhring okkar hinna og fyrir það ber að þakka.
Einn viðburður hefur fylgt nýja sveitarfélaginu næstum því frá upphafi. Það er Fiskidagurinn Mikli sem var haldinn í 18.sinn í ár. Þessi hátíð hefur þjappað fólki mikið saman og hefur átt sinn þátt í að efla metnað íbúanna fyrir því að hafa snyrtilegt í kringum sig því enginn vill hafa draslaralegt þegar von er á gestum. Þá hefur Fiskidagurinn komið Dalvíkurbyggð betur á Íslandskortið og klárlega stækkað hjörtu margra bæði hér og annars staðar, því gleðin og kærleikurinn sem ríkir kringum þessa hátíð er dýrmæt fyrir okkur íbúana og þá sem njóta.
Eins og heyra má er margt vel gert í Dalvíkurbyggð en getum við einhvers staðar bætt okkur? Hvar liggja sóknarfæri næstu ára? Við viljum fjölga íbúum hjá okkur en tökum við vel á móti þeim sem flytja hingað? Erum við dugleg að bjóða fólk velkomið? Ég held að almenna svarið við þessu sé já og auðvitað þurfa þeir sem flytja hingað að koma sér í félagslíf við hæfi. En ég hef líka heyrt í fólki sem finnst erfitt að komast inn í samfélagið og að það sé lokað. Það er ekki gott og ég vil hvetja alla til að láta sér umhugað um náungann og sýna velvild. Gefum okkur að fólki og bjóðum það velkomið. Fögnum hverjum þeim sem kemur því þannig auðgum við samfélagið, styrkjum það og bætum.
Í heild fær Dalvíkurbyggð háa einkunn ef horft er til lífsgæða hverskonar. Við erum með hátt þjónustustig, auðugt menningarlíf, frábært íþróttalíf, fjölbreytta búsetukosti, stórkostlega náttúrufegurð og eftirsóttar náttúruauðlindir. En stærsta auðlindin er fólkið sem hér býr og gerir Dalvíkurbyggð að samfélagi. Og það er verðugt þegar við leggjumst á koddann í kvöld að þakka. Þakka fyrir að vera til í þessum heimi, á þessari jörð, í þessu landi, í þessum fallega firði, í þessu yndislega 20 ára sveitarfélagi Dalvíkurbyggð, í heitu húsi undir hlýrri sæng. Þakka fyrir að fá að vera við sjálf, þakka fyrir náungann og kærleikann. Megi sveitarfélagið okkar halda áfram að vaxa og dafna um ókomin ár. Kæru gestir, til hamingju með 20 ára afmæli Dalvíkurbyggðar og takk fyrir að koma og vera með í dag.