Átaksverkefnið sumarstörf 18+

Átaksverkefnið sumarstörf 18+

Dalvíkurbyggð hefur auglýst 12 spennandi sumarstörf fyrir 18 ára og eldri ungmenni í Dalvíkurbyggð. Einnig fylgir þessum störfum eitt starf verkefnisstjóra eldri en 25 ára. Þessi störf eru hluti af viðbragðsáætlun sveitarfélagsins til að mæta atvinnuástandi í sveitarfélaginu í kjölfar Covid-19 en nýleg könnun meðal fyrirtækja í Dalvíkurbyggð sýnir að 71,4% fyrirtækjanna munu ráða færri einstaklinga til sumarstarfa en í fyrra.

Um er að ræða fjölbreytt störf í tveimur hópum og er starfstíminn tveir mánuðir, júní og júlí. Einnig er eitt starf á umhverfissviði sem felst í skráningu í gagnagrunn o.fl. og hentar nemum t.d. í byggingarfræðum eða arkitektúr.

Annar hópurinn er með áherslu á menningu og listir ásamt því að koma að leikjanámskeiðum barna á aldrinum 6-12 ára.

Hinn hópurinn er með áherslu á umhverfi og sjálfbærni og mun koma að margvíslegri útivinnu í Friðlandinu, Fólkvanginum, skógreitum og opnum svæðum í byggðarlaginu.

Átta ofangreindra starfa eru styrkt af Vinnumálastofnun í átakinu sumarstörf námsmanna en Dalvíkurbyggð áætlar að verja um 10 miljónum króna í verkefnið. Umsóknarfrestur um þessi störf er til og með 24. maí, sjá nánar hér

Með þessu átaki vonast bæjaryfirvöld til að geta mætt þeim ungmennum í Dalvíkurbyggð sem ekki hafa fengið sumarvinnu nú þegar. Einnig er verið að skoða hvort bjóða þurfi upp á sérúrræði fyrir aldurshópinn 16-18 ára og þá í tengslum við Vinnuskólann. Aðsóknin í vinnuskólanum er 40% meiri en undanfarin ár og hefur ekki verið svona mikil ásókn í vinnu þar síðan um 2009. Flokksstjórar munu hefja störf í byrjun júní og svo mæta unglingarnir til vinnu 8. júní. Það verður því líf og fjör í Dalvíkurbyggð í sumar.

Katrín Sigurjónsdóttir
Sveitarstjóri