Ársreikningur fyrir árið 2008, rekstrarniðurstaða ársins jákvæð um 48,3 m kr

Fyrri umræða um ársreikning Dalvíkurbyggðar fór fram 17. mars sl. Ársreikningurinn var síðan staðfestur í bæjarstjórn 21. apríl. Þá lá jafnframt fyrir endurskoðunarskýrsla sem lögð var fram í bæjarráði 16. apríl.
Helstu niðurstöður úr ársreikningi ársins 2008 eru þær að rekstrartekjur á árinu námu 1.336,7 millj. kr. samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð kr. 1.320,0 millj. kr.


Rekstrartekjur sveitarfélagsins hækkuðu um 90,6 millj. kr. frá fyrra ári en rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð um 48,3 m kr. Það sem helst greinir þetta ár frá árinu 2007 er verðbólgan og þar með hærri fjármagnsgjöld. Þannig var rekstrarniðurstaða án fjármagnsliða jákvæð um 211,9 millj. kr. Veltufjárhlutfall var 1,28 í árslok en var 1,22 árið áður. Handbært fé frá rekstri var 292,1 millj. kr.


Staða sveitarfélagsins er sterk og það getur staðið vel við allar sínar skuldbindingar. Undanfarin ár hafa margar íbúðir verið seldar sem skiptir máli, bæði varðandi rekstur og skuldastöðu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið á þó enn hátt í 50 íbúðir. Höggvið hefur verið í skuldir þó mikið hafi verið framkvæmt, ekki síst hjá veitum, og þannig búið í haginn fyrir framtíðina. Þess vegna getur sveitarfélgið haldið áfram framkvæmdum, nú þegar herðir að, sem er mikilvægt til að halda uppi atvinnustigi í sveitarfélaginu og til að bæta þjónustu við íbúana.