Ársreikningur Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2014 var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar 21.apríl.
Samkvæmt samstæðureikningi A og B hluta er hagnaður 105,4 milljónir sem er 53 milljónum betri niðurstaða en gert var ráð fyrir. Helsta ástæða betri afkomu en áætluð var, er að tekjur eru hærri sem nemur 67 milljónum og eru þannig samtals 1.820 milljónir. Tekjur hitaveitu lækkuðu um 20 milljónir á árinu 2014 vegna góðs tíðarfars og tekjur hafnarsjóðs hækkuðu um 17 milljónir vegna aukinna landana.
Launakostnaður hækkaði um 68,4 milljónir og munar þar mestu um kjarsamninga. Nettó fjármagnsgjöld eru 14 milljónum lægri en áætlun sagði til um vegna aðeins 1% verðbólgu en reiknað var með 2,5% verðbólgu í áætlun.
Hlutfall launa og launatengdra gjalda af heildartekjum hækkar úr 49,9% á árinu 2013 í 51,3% árið 2014. Starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu er óbreyttur á milli ára þ.e. 122 stöðugildi í A hluta en alls 130 stöðugildi hjá samstæðunni.
Útsvarsprósenta Dalvíkurbyggðar var 14,52%. A flokkur fasteignagjalda bar álagningarhlutfallið 0,49%, B flokkur 1,32% og C flokkur 1,65%.
Rekstur A hluta var jákvæður um 45,5 milljónir og voru öll B hluta fyrirtæki rekin með hagnaði nema rekstur félagslegra íbúða sem skiluðu 12,5 milljóna tapi.
Samstæðan þ.e. er A og B hluti skiluðu framlegð upp á 15,14% en var árið 2013 15,70%.
Veltufé frá rekstri var 265 milljónir. Fjárfestingar ársins numu 166 milljónum. Ekki reyndist þörf á lántökum á árinu og voru greidd upp langtímalán að upphæð 114 milljónir. Með því móti komst skuldahlutfall A og B hluta sveitarfélagsins í 74,9% á mælikvarða viðmiðunarskilgreiningar Eftirlitsnefndar sveitarfélaga en sambærileg tala árið 2013 var 80,23%. Veltufjárhlutfall er 1,17 samanborið við 1,18 árið 2013.
Eigið fé nemur 2,17 milljörðum og heildarskuldir og skuldbindingar nema 1,58 milljörðum, þar af eru langtímaskuldir 766 milljónir og 40% langtímaskulda eru vegna íbúðarhúsnæðis í eigu sveitarfélagsins. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 57,8% og hækkar um 1,4 prósentustig á milli ára.