Á fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar í gær voru ársreikningar sveitarfélagsins til umræðu. Bæjarstjóri gerði þar grein fyrir helstu niðurstöðum ársreiknings og samþykkti bæjarstjórn samhljóða að vísa honum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins Dalvíkurbyggðar samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta árið 2006 er jákvæð um 71.1 millj. kr. en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu uppá 22.4 millj. krónur. Hér er því viðsnúningur uppá 93.5 millj. króna miðað við áætlun. Rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda er jákvæð um 126.6 millj. króna. Veltufjárhlutfall er 1.83
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2006 námu 1.027 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta á móti 909 millj. kr. á árinu 2005. Munurinn er tæplega 120 millj. króna í auknar tekjur á milli ára. Fjárhagsáætlun 2006 gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 989.8 millj. kr. þannig að tekjur eru ríflega 35 milljónum króna hærri en áætlun. Þar munar einkum um það að útsvar og framlög úr jöfnunarsjóði reyndust hærri en áætlun.
Handbært fé í árslok var 194 millj. króna. Af samstæðunni nam veltufé frá rekstri 204 millj. króna. Fjárfestingar á árinu í varanlegum rekstrarfjármunum námu 118 millj. króna en söluverð seldra rekstrarfjármuna var 76 millj. króna. Nettó fjárfestingarhreyfingar voru því um 43 millj. króna en afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna á árinu námu um 68 millj. króna. Lækkun langtímaskulda er um 125 millj. króna á árinu.
Á árinu 2006 taka launaliðir 46.6% af heildartekjum sveitarfélagsins. Árið 2005 var þetta hlutfall 48.3% og árið 2004 var það 51.4% og árið 2003 reyndist það 52.3%. Launaliðir eru því miðað við þetta að verða sífellt minna hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins.
Það eru ýmsir samverkandi þættir, bæði á tekju og gjaldahlið sem leiða til ágætrar niðurstöðu ársreiknings Dalvíkurbyggðar 2006. Til framtíðar skiptir þó mestu sú staðreynd að íbúunum hefur verið að fjölga. 1. desember 2006 voru þeir orðnir 1.966 og hafði þá fjölgað um 39 frá fyrra ári.
Ársreikningar verða settir í heild sinni inn á heimasíðu sveitarfélagsins að síðari umræðu lokinni.