Árshátíð Starfsmannafélags Dalvíkurbyggðar var haldin síðastliðinn laugardag í Árskógi. Flest allir starfsmenn Dalvíkurbyggðar voru mættir í góðu skapi og skemmtu sér og öðrum. Skemmtiatriði voru fengin frá hverri stofnun sem skilaði sér í mörgum bylgjum yfir viðstadda af hlátrasköllum og geðshræringum. Íris Ólöf forstöðumaður Byggðasafnsins Hvols las upp úr grein eftir Jóhann Svarfdæling um fyrsta útvarpið í Svarfaðardal. Dagbjört Ásgeirsdóttir leikskólastjóri Krílakots las upp "nýjar" reglur varðandi barneignir starfsmanna. Starfsmenn bæjarskrifstofu sungu Abba lagið Money money money. Spóar úr grunnskólanum voru með óborganlegt atriði með pottum og ausum. Tónlistarskólinn lauk svo skemmtiatriðum með mömmu vísum sem verður að teljast atriði á heimsklassa. Ef börnin hafa svona tónlistarkennara þá er framtíðin björt í tónlistarlífi Dalvíkurbyggðar. Milli skemmtiatriða stjórnuðu Guðný Ólafsdóttir og Margrét Ásgeirsdóttir hópsöng við undirleik Magna Gunnarssonar. Ektaréttir sáu um veisluföng sem voru saltfiskbollur, steinbítur, grafinn lax, kryddsoðinn lax og lambalæri. Kaldo Kiis skólastjóri tónlistarskólans spilaði á píanó undir borðhaldi og maturinn rann ljúflega niður. Stórhljómsveitin Bylting sá svo um að spila undir dansi langt fram á nótt. Stjórn starfsmannafélags Dalvíkurbyggðar á skilið mikið hrós fyrir skipulagningu og framkvæmd árshátíðarinnar sem eflir og samstillir stóran hóp starfsmanna sveitarfélagsins. Í stjórn eru:
Jón Arnar Sverrisson
Margrét Ásgeirsdóttir
Guðný Ólafsdóttir
Sigfríð Valdimarsdóttir
Snæborg Ragna Jónatansdóttir