Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú gefið út veðurspá fyrir aprílmánaðar en félagar í klúbbnum komu saman til fundar þriðjudaginn 7. apríl.
Farið var yfir spá klúbbsins fyrir marsmánuð og voru fundarmenn á einu máli um að spáin hefði verið mjög nákvæm og gengið í öllum meginatriðum eftir. Búast má við að veður í apríl verði rysjótt svo sem verið hefur undanfarnar vikur og ekki líkur á miklum breytingum fyrr en um sumarmál. Nýtt tungl kviknar 18. apríl í V. kl. 18:57. Þetta er laugardagstungl, sem oftast hefur reynst fyrirboði um góða tíð. Nú eru einhver tákn um að það gangi ekki eftir og hætt við ótíðarköflum í mánuðinum og ekki líkur á neinum umtalsverðum hlýindum fyrr en eftir sumarmál.
Vísan sem fylgdi marsspánni gildir einnig fyrir apríl og er þannig:
“ Í apríl sumrar aftur,
þá ómar söngur nýr.
Í maí flytur fólkið
og fuglinn hreiður býr
Veðurklúbburinn á Dalbæ