Andrea Björk á Vetrarólympíuhátið Evrópuæskunnar

Dalvíkingurinn Andrea Björk Birkisdóttir hefur verið valin sem einn af þátttakendum Íslands á Vetrarólympíuhátið Evrópuæskunnar í alpagreinum sem fram fer sunnudaginn 25. janúar næstkomandi í Vorarlberg í Austurríki.  Í ár eru leikarnir samvinnuverkefni Ólympíunefnda Austurríkis og Liechtenstein. Framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands hefur samþykkt tilnefningar Skíðasambands Íslands (SKÍ) og Skautasambands Íslands (ÍSS) vegna viðburðarins.
Ísland sendir að þessu sinni 8 keppendur til leiks og keppa þau í þremur íþróttagreinum. Fimm keppendur munu keppa í svigi og stórsvigi á hátíðinni, tveir keppa í skíðagöngu og ein stúlka keppir í listhlaupi á skautum.
Íslenski hópurinn heldur utan á laugardaginn og kemur heim viku síðar.


Andrea, sem nú býr í Geiló í Noregi ásamt fjölskyldu sinni, stundar þar nám og leggur mikið kapp á æfingar samhliða námi. Hún hefur keppt á nokkrum alþjóðlegum skíðamótum í Noregi í vetur með góðum árangri sem m.a. tryggðu henni þátttöku á Ólympíuhátíðinni. 


Hægt er að fylgjast með Ólympíuhátíðinni á síðunni http://www.eyowf2015.org
Einnig verða birtar fréttir á heimasíðu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands www.isi.is