Andlitslyfting á heimasíðu Dalvíkurbyggðar

Ný og uppfærð heimasíða sveitarfélagsins Dalvíkurbyggðar verður opnuð fimmtudaginn 1. júní á slóðinni www.dalvik.is, kl. 11:00. Heimasíðan er unnin af fyrirtækinu Outcome Hugbúnaði ehf. og er nýja síðan ákveðin andlitslyfting á eldri síðu sveitarfélagsins sem og nýja síðan mun koma til með auka rafræna þjónustu sveitarfélagsins við íbúa þess. Þar að auki hefur ýmsum upplýsingum um sveitarfélagið verið bætt við vefinn. Nýja síðan mun áfram hafa nýjustu fundargerðir ráða og nefnda og viðburðadagatal á forsíðu líkt og sú eldri gerði en til viðbótar eru komnar flýtileiðir inn á helstu eyðublöð og önnur málefni sem mikilvæg eru hverju sinni.   
Meðal þeirra nýjunga sem síðan hefur er aukið aðgengi fyrir fatlaða þar sem nýjir takkar eru fyrir sjónskerta og blinda. Jafnframt geta íbúar nú sjálfir skilað inn álestri hitaveitu í gegnum netið og flýtt þar með gangi mála.

Eins og áður sagði er vefsíðan liður í aukinni þjónustu við íbúa sem færist í átt að rafrænni stjórnsýslu og verður áfram unnið að bættum möguleikum íbúa á 24 tíma þjónustu sveitarfélagsins.

Auk uppfærslu á heimasíðu Dalvíkurbyggðar verða opnaðir nýjir vefir fyrir Byggðasafnið Hvoll og Bóka- og héraðsskjalasafn Dalvíkur. Vefina má finna á eftirfarandi vefslóðum: www.dalvik.is/byggdasafn og www.dalvik.is/bokasafn.