Alþjóðlegir sjálfboðaliðar leggja hönd á plóg

Alþjóðlegir sjálfboðaliðar leggja hönd á plóg

Þessa dagana eru sex sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar að störfum við lagningu stíga í Friðlandi Svarfdæla. Í síðustu viku vann flokkurinn við smíði göngupalls að nýja fuglaskoðunarhúsinu við Tjarnartjörn en síðustu daga hefur hann lagfært göngustíga við Hrísatjörn og smíðað brú á fyrirhugaðri gönguleið frá Dalvík fram í Hrísahöfða.  Sexmenningarnir hafa tekið þátt í nokkrum stígaverkefnum á vegum Umhverfisstofnunar í sumar,  verið m.a. í Skaftafelli, Þórsmörk og Jökulsárgljúfrum. og fengið að eigin sögn sýnishorn af öllum veðrum  sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.  Hópurinn hefur haft aðstöðu á Húsabakka á meðan á dvölinni hér stendur. Umhverfisstofnun  sér fólkinu fyrir fæði og verkfærum en ferðirnar borgar hver fyrir sig. „Við erum búin að búa í tjöldum í allt sumar þannig að þetta er tvímælalaust það besta sem við höfum búið við hingað til„ segir Anne frá Edinborg sem fer fyrir hópnum. Í sumar hafa sjö hópar sjálfboðaliða unnið að stígagerð á vegum Umhverfisstofnunar víðs vegar um landið.

 
Sjálfboðaliðarnir við Hrísatjörn