Alþingi hefur samþykkt að framlengja aftur heimild til að endurgreiða að fullu þann virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðar- og frístundahúsnæðis hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað og af vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðisins.
Hvatningarátakið Allir vinna verður því í gildi allt næsta ár. Eyðublöð til þess að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts má nálgast hjá skattstjórum eða á vef ríkisskattstjóra. Halda þarf til haga frumritum af öllum greiddum reikningum og skulu þeir vera sundurliðaðir í efniskostnað annars vegar og vinnukostnað hins vegar.