Listaverkið Alda er nú risið að nýju eftir að hafa verið í geymslu um nokkurt skeið. Alda stendur á gatnamótum Hafnarbrautar og Goðabrautar með útsýni yfir hafnarsvæðið og út fjörðinn sem er vel við hæfi.
Saga verksins spannar nokkur ár en árið 1994 efndu Dalvíkurbær og Sparisjóður Svarfdæla, í samstarfi við Listskreytingasjóð Ríkisins, til samkeppni um útilistaverk við Ráðhús Dalvíkur. Auglýst var eftir þátttakendum og sendu 24 inn tillögu en úr þeim hópi voru fjórir valdir til að gera endanlega tillögu að verkum. Myndlistakonan Jóhanna Þórðardóttir var ein þeirra með verkið Öldu sem valið var af fimm manna dómnefnd til frekar útfærslu
og vinnslu. Verkið var síðan afhjúpað 22. júní 1996 á lóð Ráðhússins. Þar stóð verkið allt þar til framkvæmdir við Berg menningarhús hófust en þá var verkinu komið fyrir í geymslu.
Alda hefur nú fengið nýtt heimili eins og áður sagði en Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri, hafði veg og vanda af því að koma verkinu fyrir á nýjum stað. Þessa dagana er verið að vinna að merkingu verksins en það er Tómas Einarsson steinsmiður á Ólafsfirði sem letrar á steininn, lýsing er svo í höndum Páls Matthíassonar rafvirkja.
Þegar verkið var valið á sínum tíma var þetta sagt:
Verkið er stílhreint og fágað og fellur vel að umhverfinu. Samspil birtu og skugga i stálinu gefur því sannfærandi yfirbragð og hefur höfundur leyst vel tengsl listar, sögu og atvinnu staðarins.