Afsláttur fasteignagjalda

 

Reglur

um lækkun og niðurfellingu fasteignaskatts tekjulágra elli- og

örorkulífeyrisþega samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar.

1. gr.

Til að geta átt rétt á afslætti af fasteignaskatti samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar hverju sinni þarf eftirtöldum skilyrðum að vera fullnægt.

a.            Umsækjandi sé 75% öryrki eða 67 ára eða eldri.  Ellilífeyrisþegar geta fyrst átt rétt á afslætti hafi þeir orðið 67 ára á næsta ári á undan álagningarári.  Þeir sem eru úrskurðaðir 75% öryrkjar á álagningarári eiga rétt á hlutfallslegri lækkun frá því að örorkumat tók gildi.

b.            Umsækjandi búi sjálfur í íbúðarhúsnæðinu sem staðsett sé á íbúðarsvæði skv. skipulagi.  Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði  þegar umsækjandi dvelur á stofnun, á því ári sem viðkomandi fer á stofnun og næsta ár á eftir, enda hafi viðkomandi ekki leigutekjur af húsnæðinu.  Sé sótt um afslátt af húsnæði sem stendur utan hefðbundins íbúðarsvæðis skv. skipulagi skal afsláttur áskilinn því að húsnæðið hafi A skráningu í Landsskrá fasteigna og ekki sé um að ræða húsnæði sem stendur á skráðu frístundahúsasvæði.

c.            Sé umsækjandi í óvígðri sambúð gilda sömu reglur og um hjón sé að ræða.

d.            Þegar um hjón eða sambúðaraðila er að ræða nægir að annað hjóna eða sambúðaraðila fullnægi því skilyrði að vera elli- eða örorkulífeyrisþegi.

e.            Falli annar aðilinn, sem getið er í staflið d, frá þá á sá eftirlifandi rétt á því að njóta afsláttar hjóna, eða sambúðaraðila, út árið sem fráfallið átti sér stað á óski hann þess.

f.              Verði slit á hjónabandi eða sambúð þeirra einstaklinga sem getið er í staflið d þá eiga aðilar máls rétt á öðru tveggja  frá og með þeim tíma sem lögskilnaður er skráður eða sambúðarslit skráð:

         1. að njóta óbreytts afsláttar út álagningarárið óski þeir þess

         2. að vera meðhöndlaðir sem einstaklingar frá og með þeim tíma óski þeir þess,

enda geti þeir með fullnægjandi hætti sýnt aðgreindar sértekjur sínar vegna ársins á undan sbr. gr. 2 og 3.

2. gr.

Varðandi tekjuviðmiðanir er litið til tekna eins og þær eru skv. tekju- og útsvarsstofni svo og er litið til fjármagnstekna eins og þessar tekjur voru á næsta ári á undan álagningarárinu.

3. gr.

Umsækjendur skulu leggja fram umsókn á tilskildum eyðublöðum ásamt endurriti af skattframtali staðfestu af skattstjóra og örorkumatsvottorð ef við á.

Ekki er tekið við umsóknum eftir 30. júní fyrir það ár sem um ræðir.

4. gr.

Elli- og örorkulifeyrisþegar fá allt að kr. 30.000,- afslátt fasteignaskatts af eigin íbúð sem þeir búa sjálfir í.  Afsláttur til elli- og örorkulifeyrisþega er tekjutengdur sem hér segir:

a)                  Einstaklingur með tekjur allt að kr. 1.318.773,- 

b)                  Hjón og sambýlisfólk með tekjur allt að kr. 1.820.079,-

Reglur þessar eru settar með heimild í lögum um tekjustofna sveitarfélaga

nr. 4/1995,  5. gr. 4. mgr.

Samþykkt á fundi bæjarráðs Dalvíkurbyggðar 25.11.2004.