Afleiddar hættur vegna jarðskjálfta - flóðbylgjuhætta
24. júní 2020
Neðangreindar upplýsingar koma frá Eftirlits- og spásviði Veðurstofu Íslands:
Gott er að huga að afleiddum hættum í kjölfar stærri jarðskjálfta. Auk skriðufalla, grjóthruns og snjóhengjuhruns verður einnig að nefna flóðbylgjuhættu. Flóðbylgjur þekkjast í kjölfar stærstu skjálftanna sem orðið hafa á svæðinu og eru líklega framkallaðar af neðansjávar skriðum og/eða skriðum sem falla í sjó fram. Hættan af flóðbylgjum er mest við strendur og áhrifasvæði getur verið nokkuð stórt og eins getur hættan varað í nokkrar klst eftir skjálftann. Flóðbylgjur fylgdu stóru skjálftunum sem urðu á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu árin 1872 og 1755.
Þó að ekki sé búist við margra metra háum flóðbylgjum, þá er hættan lúmsk og betra að vara strax við því að vera niður við hafnir eða niður við sjó í allt að 2 klst eftir stóran skjálfta.
Til að átta sig betur á hættunni fylgir hér myndband sem sýnir flóðbylgju í Kaliforníu sem á upptök frá stóra skjálftanum í Japan 2011 Þó aldan sé ekki mjög há veldur hún þó usla í smábátahöfn:
Hér fyrir neðan eru útreikningar frá Angel Ruiz haffræðingi á Veðurstofunni sem sýna niðurstöður líkanreikninga á flóðbylgju með upptök við Flatey. Grafið sýnir tímaþróun flóðbylgju m.v. hafnarsvæði á Akureyri, Dalvík og Ólafsfirði. Líkanið bendir t.d. til að aðstæður við Ólafsfjörð örvi töluverðar sveiflur. Erfitt er að meta hámarksútslag ölduhæðar en gera verður ráð fyrir að ölduhæð geti orðið hærri en kemur fram í grafinu.