Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008-2020

Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar 2008-2020

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar var formlega samþykkt Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar fyrir árin 2008-2020.
Gerð aðalskipulags Dalvíkurbyggðar hófst árið 2003 og hefur verið unnið að skipulaginu með hléum. Við gerð skipulagsdraga 2007-2008 var tekið mið af nýjum lögum um umhverfismat áætlana eftir því sem verkið gaf tilefni til. Ekki var þörf á að velja milli ólíkra skipulagskosta sem áttu við framkvæmdir eða verkefni, sem heyra undir lög um mat á umhverfisáhrifum (MÁU). Aðferð MÁU var hins vegar beitt við val á milli kosta á nýjum athafna – og iðnaðarsvæðum utan þéttbýlis og staðarval fyrir búgarðabyggð við Hauganes. Einnig þótti ástæða til að meta á sama hátt þann þátt stefnu bæjarstjórnar fyrir aðalskipulag sem líklegastur var til að hafa áhrif á umhverfi og samfélag, þ.e. stefnu um nýtingu landbúnaðarlands. Áhrif annarra stefnumiða bæjarstjórnar teljast augljós og fyrirséð.

Á myndinni hér til hliðar undirritar Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri, Aðalskipulag Dalvíkurbyggðar fyrir árin 2008-2020 en með henni á myndinni er Þorsteinn Björnsson sviðsstjóri umhverfis - og tæknisviðs.


Vinnuferlið hefur annars verið sem hér segir:


• Íbúaþing var haldið 21. október 2006 og var niðurstaða þess nýtt við áframhaldandi vinnu við aðalskipulag.
• Samráð var haft við Skipulagsstofnun um umfang og áherslur umhverfismats áætlunarinnar 10. janúar 2008 og barst svar 12. febrúar2008.
• Áhrifamat áætlunarinnar var undirbúið af skiplagsráðgjöfum. Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar og starfsmenn Umhverfisssviðs lögðu mat á þá þætti sem voru til skoðunar og mynduðu matsteymi. Matið byggðist því á fjölbreyttum sjónarmiðum fólks með ólíka menntun, bakgrunn og reynslu.
• Kynningarfundur um drög að ákvæðum um landbúnaðarland og náttúruvernd var haldinn 1. apríl 2008 og sama ár 10. júní var haldinn kynningarfundur um drög að aðalskipulagi, stefnu og helstu áherslur.
• Í október 2008 voru skipulagsgögn send umsagnaraðilum.
• Í lýðræðisviku sveitarfélaga 18. október 2008 kynntu starfsmenn umhverfissviðs og nefndarmenn í umhverfisráði drög að skipulagi.
• Samráðsfundur með landeigendum um reiðleiðir var haldinn 18. janúar 2009.
• Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkti 17. febrúar 2009 að senda skipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar til yfirferðar og að hún yrði síðan auglýst í samræmi við ákvæði skipulags – og byggingarlaga.
• Skipulagstillagan var auglýst 6. apríl 2009 og var athugasemdafrestur til 20. maí 2009. Almennur kynningarfundur um tillöguna var haldinn 12. maí 2009.
• 15 athugasemdir bárust á auglýsingatíma auk athugasemda sem fram komu á kynningarfundinum 12. maí. Einnig barst síðbúin umsögn Umhverfisstofnunar um skiplagstillöguna á auglýsingatímanum.
• 3. júní 2009 gekk Umhverfisráð frá tillögu til afgreiðslu athugasemda og breytingar á skipulagsgögnum. 16. júní vísaði bæjarstjórn erindinu til umfjöllunar í bæjarráði. Bæjarráð fjallaði um aðalskipulagið 25. júní og gerðir nokkrar breytingar.
• Bæjarstjórn samþykkti tillöguna endanlega á fundi sínum 30. júní 2009. Breytingar sem gerðar voru við lokafrágang aðalskipulagsins gefa ekki tilefni til þess að auglýsa tillöguna að nýju þar sem þær eiga ekki við meginatriði stefnu eða skipulagsákvæðis.