Þann 22. ágúst var aðalfundur Hafnarsamlags Eyjafjarðar haldinn í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju. Hafnarsamlag Eyjafjarðar (HSE) var stofnað árið 1993 og eru hafnirnar á Ólafsfirði, í Dalvíkurbyggð og Hrísey í samlaginu. Í Eyjafirði er svo auk þess Hafnarsamlag Norðurlands (HN) sem nær frá Hjalteyrarhöfn að vestan og allt til Grenivíkur. Siglufjarðarhöfn er utan við þessi hafnarsamlög.
Nær allir bæjarfulltrúar Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar sátu fundinn auk stjórnarmanna hafnarsamlagsins. Bæjarstjórinn á Akureyri sat einnig fundinn þar sem Hríseyjarhöfn er í samlaginu. Á fundinum var m.a. rætt um framtíð hafnarsamlagsins en ólíklegt var talið að það starfaði lengi í óbreyttri mynd. Það sem einkum hefði áhrif væri sameining sveitarfélaga og breytt lagaumhverfi. Einkum var talið að um þrjá möguleika væri að ræða; 1. að allar hafnir við Eyjafjörð sameinuðust, 2. að Hrísey gengi úr HSE og sameinaðist HN og Siglufjörður gengi inn í HSE og 3. að Hrísey gengi úr HSE og inn í HN, hafnirnar í Fjallabyggð væru sér og hafnirnar í Dalvíkurbyggð sér. Talsverðar umræður urðu um þessi mál á fundinum og munu þær halda áfram innan sveitarstjórnanna á svæðinu.
Formaður stjórnar hafnarsamlagsins er Ásgeir Logi Ásgeirsson Ólafsfirði en framkvæmdastjóri Svanfríður Jónasdóttir Dalvíkurbyggð