Að gefnu tilefni - Endurnýjun lóðarleigusamninga

Að gefnu tilefni - Endurnýjun lóðarleigusamninga

Endurnýjun lóðarleigusamninga

Það er á ábyrgð lóðarhafa hverju sinni að sjá til þess að lóðarleigusamningur sé í gildi við landeiganda. Sýslumannsembættin á landinu hafa nú tekið upp það verklag að skjölum er varða m.a. kaup, sölu og endurfjármögnun fasteigna er ekki þinglýst nema að lóðarleigusamningur fyrir viðkomandi fasteign sé í gildi.

Um síðustu áramót tók gildi ný reglugerð um merki fasteigna og er markmið hennar að tryggja að mörk fasteigna, þ.e. lóða, séu hnitsett og skýr þannig að auðvelt sé að átta sig á afmörkun þeirra. Reglugerðin gerir kröfu um ítarlega skráningu á upplýsingum um fasteign á svokallað lóðablað og skal slíkt lóðablað ávallt fylgja nýjum lóðarleigusamningum.
Nýja reglugerðin kveður jafnframt á um það að einungis aðilar sem hafa hlotið til þess réttindi megi mæla upp lóðir og útbúa lóðablöð. Dalvíkurbyggð hefur nýtt sér þjónustu verkfræðistofu til þessara verkefna.

Það er mikilvægt að lóðarhafar átti sig á að ferli við endurnýjun lóðarleigusamninga getur tekið talsverðan tíma.

Til að gefa skýrari mynd af tímalínunni þá er ferlið við endurnýjun svohljóðandi:

  1. Lóðarhafi sækir um endurnýjun lóðarleigusamnings í gegnum þjónustugátt á heimasíðu Dalvíkurbyggðar. Við það stofnast mál í málakerfi sveitarfélagsins sem verður tekið til afgreiðslu hjá skipulagsfulltrúa. Athugið að nöfn allra þinglýstra lóðarhafa þurfa að koma fram í umsókn, ásamt kennitölu. Ef sótt er um endurnýjun fyrir hönd lóðarhafa, t.d. af hálfu fasteignasölu, þarf að liggja fyrir skriflegt umboð lóðarhafa.

  2. Ef ekki er til lóðablað fyrir viðkomandi lóð sem uppfyllir skilyrði reglugerðar nr. 160/2024 þarf að mæla lóðina upp og útbúa lóðablað. Í þeim tilvikum sendir skipulagsfulltrúi beiðni til verkfræðistofu eða annars aðila sem réttindi hefur til verksins. Það fer eftir verkefnastöðu viðkomandi aðila hversu fljótt er hægt að sinna því verki. Alla jafna hefur tekist að vinna lóðablöð á innan við 10 dögum en dæmi eru um að tíminn hafi verið lengri.
  3. Þegar lóðablöð eru tilbúin eru þau send til sveitarfélags til yfirferðar og samþykktar og yfirleitt næst að gera það samdægurs. Þegar sveitarfélagið hefur samþykkt lóðablað er það sent til yfirferðar og samþykktar hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Mikið álag hefur verið á starfsfólki þeirrar stofnunar frá því reglugerð nr. 160/2024 tók gildi um síðustu áramót og hefur biðtími eftir samþykkt lóðablaða farið upp í allt að 6 vikur.

  4. Ef HMS gerir athugasemdir við innsend lóðablöð þarf að gera viðeigandi lagfæringar og senda þau aftur inn til stofnunarinnar. Það getur tekið nokkra daga og fer eftir verkefnastöðu viðkomandi starfsfólks. Þegar lóðablöð eru samþykkt af HMS eru þau send aftur til sveitarfélagsins.

  5. Þá er hægt að útbúa nýjan lóðarleigusamning. Verkið sjálft tekur stuttan tíma en það fer eftir verkefnastöðu starfsfólks hvenær viðkomandi kemst í verkið. Í þeim tilfellum þar sem söluferli fasteigna eða endurfjármögnun standa fyrir dyrum er útgáfa lóðarleigusamninga þó ávallt sett í forgang fram yfir önnur verkefni eftir því sem mögulegt er. Nýir og endurnýjaðir lóðarleigusamningar í Dalvíkurbyggð eru ótímabundnir.

  6. Þegar lóðarleigusamningur er tilbúinn til undirritunar eru lóðarhafar boðaðir í ráðhús til að undirrita. Allir lóðarhafar sem tilgreindir eru í samningnum þurfa að mæta til undirritunar. Lóðarhafi sér svo sjálfur um að koma endurnýjuðum samningi í þinglýsingu til sýslumanns.

Ef sala, endurfjármögnun eða annað ferli stendur fyrir dyrum þar sem krafist er þinglýsingar á skjölum er varða fasteign eru lóðarhafar því eindregið hvattir til þess að kanna stöðuna á sínum lóðarleigusamningum.

Þinglýsta lóðarleigusamninga má nálgast hjá embætti sýslumanns.