Rétt fyrir lokun á aðfangadag birtist 50 þúsundasti gesturinn í Sundlaug Dalvíkur á árinu 2003. Það var fastagestur frá opnun, einn af morgungestunum okkar, Sigurjón Kristjánsson sem varð þessarar ánægju aðnjótandi. Honum var að vonum vel tekið, fékk lófatak frá gestum í heitu pottunum og var leystur út með blómum, konfekti og 15.500 króna gjafabréfi sem hann getur notað til kaupa á vörum eða þjónustu í Sundlaug Dalvíkur. Þessu til viðbótar fær hann einkaafnot af skápi númer 50...en einhverjir efast um að hann nýti sér það þar sem morgunhanarnir eru afar vanafastir og ekki til í að skipta um skáp nema eitthvað sérstakt komi til!
Í fyrra fjölgaði sundgestum um rúmlega 5000, mest vegna tilkomu heilsuræktarinnar en síðan gerðist það í ár að aftur fjölgaði um 5000 gesti þannig að á tveimur árum hefur gestafjöldi farið úr 40.000 í yfir 50.000. Það er eins og fyrr segir mest vegna tilkomu heilsuræktarinnar en einnig verður starfsfólk sundlaugarinnar vart við mikla aukningu ferðamanna yfir sumartímann.
Sundlaug Dalvíkur óskar Sigurjóni innilega til hamingju og þakkar honum og öðrum sundgestum fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða með von um að sjá þá sem oftast á nýju ári.