Vinnuverndarvikan 24.-28. október er kjörið tækifæri fyrir stjórnendur og starfsmenn til að efla það vinnuverndarstarf sem þegar er til staðar. Fyrirtæki eru hvött til að nýta sér upplýsingar um öryggi við viðhaldsvinnu sem er að finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins undir flipanum Vinnuverndarvikan 2011. Á síðunni er bæði að finna efni tengd vinnuverndarvikunni og gerð áhættumats. Slóðin er www.vinnueftirlit.is
Vikan verður að þessu sinni notuð til að kynna fyrir atvinnulífinu áhættumat í tengslum við viðhaldsvinnu og þá sérstaklega hvað varðar viðhald véla og tækja. Áhættumatið eins og það er kallað, heitir formlega skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Það er lögbundin skylda allra atvinnurekenda að sjá til þess að áhættumat sé unnið fyrir viðkomandi vinnustað.
Í vinnuverndarvikunni eru ýmsir viðburðir, m.a. verður haldin ráðstefna þriðjudaginn 25. október á Grand Hótel Reykjavík kl. 13:00-16:00. Á dagskrá verða fyrirlestrar og fyrirtæki sem skara fram úr í vinnuvernd verða verðlaunuð. Allir eru velkomnir. Aðgangur er ókeypis.