Vetrarleikar Krílakots og Kátakots voru haldnir í Kirkjubrekkunni hér á Dalvík í síðustu viku í blíðskaparveðri. Fjölmargir foreldrar komu til að eiga góða stund með börnum sínum og einnig mátti sjá marga afa og ömmur.
Leikarnir sjálfir heppnuðust einstaklega vel og mátti sjá að ungir sem aldnir skemmtu sér konunglega. Kirkjubrekkunni var vel skipt upp í brautir og búið var að mynda tvo misstóra stökkpalla. Heiðursgesturinn var Arnar Símonarson (Addi Sím) sem stóð sig sem hetja og renndi sér á myndarsleða sem hann Elvar Karl á Kátakoti var svo vænn að lána honum. Þökkum við krökkunum úr 8. bekk Grunnskólans fyrir þátttöku þeirra og ekki síst alla aðstoðina sem þau veittu okkur starfsfólkinu og börnunum!
Tryggvi Kristjánsson frá Skíðafélagi Dalvíkur var sá sem gaf okkur tíma sinn til að troða fyrir okkur Kirkjubrekkuna og færum við honum og Skíðafélaginu kærar þakkir fyrir!! Og stjórn Björgunarsveitarinnar var svo væn að lána okkur gjallarhorn, sem er í rauninni ómissandi til að hægt sé að stjórna svo stórum hópi sem þessum. Og ekki má gleyma Dalvíkurkirkju sem opnar dyrnar sínar fyrir leikskólunum þegar eitthvað er um að vera. Samhjálp sem þessi og samhugur er eitthvað sem við sem hér búum þurfum að varðveita og meta, því í honum eru falin dýrmæt verðmæti sem ekki má taka sem sjálfsagðan hlut.