Atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar stóð fyrir fyrirtækjaþingi sem haldið var í safnaðarheimilinu á Dalvík í gær. Boðaði nefndin fulltrúa starfandi fyrirtækja í sveitarfélaginu og annað áhugafólk um atvinnumál og þróun svæðisins á þingið og var mæting nokkuð góð. Málþingið hófst með umræðu um samvinnu við utanverðan Eyjafjörð þar sem Jón Hrói Finnsson, þróunarstjóri hjá Fjallabyggð, skoðaði möguleikana á samstarfsverkefnum með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Þá kynnti Jón Þorvaldur Heiðarsson, sérfræðingur hjá Rannsókna - og þróunarstofnun Háskólans á Akureyri, skýrslu sína um Eyjafjarðarstrætó þar sem skoðaðir eru möguleikar á því að starfrækja strætó sem fer á milli Siglufjarðar og Akureyrar.
Magnús Þór Ásgeirsson frá AFE sagði einnig frá aflþynnuverksmiðjunni sem rísa mun á Akureyri á næstunni og hvaða áhrif slík verksmiðja mun hafa á svæðið m.a. með tilliti til þekkingu sem skapast mun hér og tilkomu nýrra starfa. Í lokin kynnti Björn Snorrason fyrirtæki sitt Dalpay sem starfað hefur síðan 2003 og er starfrækt er að mestu í gegnum internetið.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Jón Þorvald kynna skýrslu sína.